Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Hefur haft brýnni málum að sinna en að svara Samherja

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsdótt - RÚV
Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra segist hafa haft brýnni málum að sinna en að svara bréfi lögmanns Samherja þar sem hún er beðin um að útskýra orð sem hún lét falla um fyrirtækið á Alþingi í lok apríl. Hún segir að orð sín skýri sig sjálf og að alþingismenn njóti þinghelgi samkvæmt stjórnarskránni.

Viðbrögð Samherja við fjölmiðlaumfjöllun og umræðu um fyrirtækið voru rædd á Alþingi í lok apríl, viku eftir að fyrirtækið birti myndband þar sem meðal annars var varpað fram spurningum um trúverðugleika Ríkisútvarpsins. Þar sagði Lilja að hún teldi fyrirtækið hafa gengið of langt. Í kjölfarið sendi Arnar Þór Stefánsson, lögmaður Samherja, Lilju bréf þar sem hún var beðin um að útskýra betur þessi orð sín og var hún krafin svara innan viku.

Lilja hefur ekki svarað bréfinu og í skriflegu svari til fréttastofu þar sem hún er spurð hvers vegna hún hafi ekki gert það segir Lilja að hún hafi haft brýnni málum að sinna. Orð hennar skýri sig sjálf og þá njóti alþingismenn þinghelgi samkvæmt stjórnarskrá. Í því felist víðtækt málfrelsi þingmanna sem verði ekki krafðir svara við orðum sínum í þingsal. Hún segist líta svo á að málinu sé lokið.

Í svarinu segir Lilja að hún hafi ekki fengið neina skýringu frá Samherja eða lögmanni fyrirtæksins og hún hafi ekki verið í neinum samskiptum við það vegna bréfsins.

Í gær sendu stjórnendur Samherja frá sér yfirlýsingu um að þeir hefðu gengið of langt með viðbrögðum sínum við umfjöllun um fyrirtækið. Spurð hvort hún telji að sú yfirlýsing eigi einnig við um bréfið til hennar segist Lilja ekki hafa sérstaka skoðun á því. „Enda ekki mitt að túlka þessa afsökunarbeiðni fyrirtækisins,“ segir í svari Lilju.