Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Greiddi 1,1 milljarð en viðurkenndi ekki ábyrgð

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist - RÚV
PricewaterhouseCoopers sem voru endurskoðendur Landsbanka Íslands fyrir hrun greiddu slitastjórn bankans jafnvirði 1100 milljóna króna árið 2017. Slitastjórnin stefndi PWC árið 2012 og krafði fyrirtækið um 100 milljarða króna í skaðabætur. Málið var fellt niður. Upphæð samkomulagsins varð fyrst opinber á föstudaginn í dómi Landsréttar yfir stjórnendum Landsbankans fyrir hrun. 

Upplýsingar komu fram í öðrum dómi

Landsréttur sýknaði tvö erlend vátryggingafyrirtæki, Elínu Sigfúsdóttur og Halldór J. Kristjánsson í dómi sínum en dæmdi Sigurjón Árnason til að greiða slitastjórninni 50 milljónir króna í skaðabætur. 

Í málsmeðferð í héraði hafði komið fram að dómsmál slitastjórnar Landsbankans gegn PricewaterhouseCoopers LLP og PricewaterhouseCoopers ehf. var fellt niður 2017. Fyrirtækin voru endurskoðendur bankans. 

Kröfðust 100 milljarða í skaðabætur 

Árið 2012 stefndi slitastjórnin PWC til greiðslu 100 milljarða í skaðabætur og kom fram í stefnu að endurskoðendurnir hefðu valdið bankanum tjóni með athöfnum, athafnaleysi og rangri ráðgjöf. Meðal ávirðinga voru lánveitingar sem tengdust Björgólfi Guðmundssyni stjórnarformanni bankans og einum aðaleiganda hans. Þær lánveitingar voru tilefni dómsmálsins á hendur fyrrum stjórnendum bankans sem Landsréttur dæmdi í á föstudaginn. 

Landsréttur hafnaði að halda leynd

Við meðferð málsins var trúnaði aflétt af samkomulagi PWC og slitastjórnarinnar því Landsréttur hafnaði að trúnaður ætti að ríkja um það. Í því fellst PWC á að ljúka dómsmáli með því að greiða slitastjórn níu og hálfa milljón bandaríkjadala eða 1146 milljónir króna miðað við gengi dagsins. Þar kemur einnig fram að endurskoðunarfyrirtækin viðurkenna ekki ábyrgð og slitastjórnin viðkennir ekki að málshöfðun hafi verið tilhæfulaus.