BSÍ – Stundum þunglynd... en alltaf andfasísk

Mynd: postdreyfing / Stundum þunglynd ... alltaf and

BSÍ – Stundum þunglynd... en alltaf andfasísk

31.05.2021 - 15:35

Höfundar

Sigurlaug Thorarensen og Julius Pollux Rothlaender stofnuðu hljómsveitina BSÍ undir þeim formerkjum að spila á hljóðfæri sem þau kynnu ekkert á í anda gamla pönksins. Þau hafa nýlega gefið út plötuna Stundum þunglynd... en alltaf andfasísk sem endurspeglar að þau líta á hljómsveit sína, BSÍ, sem leikvöll þar sem allt er leyfilegt og þau geta verið þau sjálf.

Af hverju í ósköpunum myndi einhver nefna hljómsveitina sína í höfuðið á grárri og þunglyndislegri langferðabifreiðastöð í Reykjavík, sem er mögulega einn eymdarlegasti staður Íslands? Sigurlaug og Julius svara því ekki beinlínis í fréttatilkynningunni sem fylgir plötu vikunnar á Rás 2 að þessu sinni. Þar kemur samt sem áður fram að Sigurlaug spilar á trommur auk þess að syngja, en Julius bassa og tá-syntha, hvað sem það nú er.

Þau eru að eigin sögn bestu vinir, sem skröltast og skvettast í gegnum lífið án þess að taka sig of hátíðlega, en reyna að sjá það sem valdeflandi og hvetjandi að takast á við efasemdir og ófullkomleika auk þess að vera óhrædd við að gera og vera nákvæmlega eins og þeim sýnist.

Titillinn á fyrstu breiðskífu þeirra, Stundum þunglynd... en alltaf andfasísk, sem kemur af þýskum baráttubol, segir allt sem segja þarf um Sillu og Julíus. Það vilja þau allavega meina og segja hann endurspegla lagasmíða- og upptökuferli plötunnar. Platan er að þeirra sögn sambland af berskjaldaðri sorg og hrárri gleði og skiptist í fimm melankólísk ástarsorgarlög á móti fimm hraðari og pönkaðri lo-fi-krútt-popp-pönklögum.

Stundum þunglynd... en alltaf andfasísk, kom fyrir tíu dögum, þann 21. maí, á allra helstu streymisveitur. Auk þess gefa þau hana út á endurunnum vínyl, með aðstoð Tomatenplatten í Berlín og útgáfufyrirtækjanna Why Not? og post-dreifingar sem eru bæði íslensk. Alison MacNeil sá um upptökur í Reykjavík, Thomas Götz sá um upptökur í Berlín, Francine Perry hljóðblandaði í London og Sarah Register hljómjafnaði í New York.

Plata BSÍ, Stundum þunglynd... en alltaf andfasísk er plata vikunnar á Rás 2 og verður spiluð í heild sinni ásamt kynningum Sillu og Júlla, eftir 10-fréttir í kvöld auk þess að vera aðgengileg í spilara.