Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Tugir þúsunda mótmæltu Bolsonaro á laugardag

epa09236294 Citizens gather to protest against Brazilian President Jair Bolsonaro and his handling of the COVID-19 pandemic crisis, in Sao Paulo, Brazil, 29 May 2021.  EPA-EFE/Fernando Bizerra
Íbúar Sao Paulo mótmæla forsetanum Bolsonaro og stjórnarháttum hans laugardaginn 29. maí 2021 Mynd: EPA-EFE - EFE
Tugir þúsunda flykktust út á götur og torg í tugum brasilískra borga í dag, til að mótmæla forsetanum Jair Bolsonaro, framgöngu hans í baráttunni við kórónaveirufaraldurinn, og eyðingu Amason-frumskógarins. Þar að auki sökuðu mótmælendur forsetann um að ýta undir kynþáttahatur og ofbeldi í Brasilíu. Kröfðust mótmælendur þess að forsetinn yrði kærður til embættismissis fyrir glæpsamleg afglöp í starfi.

Hreyfingar og félagasamtök á vinstri væng stjórnmálanna, auk samtaka háskólastúdenta, blésu til mótmælanna í dag.  Fjölmennust voru þau í Ríó de Janeiro, þar sem á milli tíu og tuttugu þúsund manns hlýddu kallinu í hvorri borg, marseruðu grímuklædd um borgina, hrópuðu „Burt með Bolsonaro!“ og sökuðu forsetann um þjóðarmorð. Einnig var mótmælt í Sao Paulo, Belo Horizonte, Salvador og höfuðborginni Brasilíu, auk fleiri borga.

Er forsetanum borið á brýn að gera lítið úr þeirri ógn sem af heimsfaraldrinum stafaði og stuðla þannig að hraðari og meiri útbreiðslu farsóttarinnar en ella. Bolsonaro hefur lýst COVID-19 sem meinlítilli flensu og barist gegn flestum þeim aðgerðum sem yfirvöld einstakra ríkja - og jafnvel heilbrigðisráðherrar í ríkisstjórn hans sjálfs - hafa gripið til í því skyni að reyna að hemja útbreiðslu sóttarinnar.  

Vinsældir forsetans hafa dalað mjög að undanförnu og samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum eru einungis 24 prósent kjósenda ánægð með störf hans. Síðustu vikur hefur reyndar verið blásið til útifunda honum til stuðnings, og hafa nokkur þúsund komið saman á þeim fjölmennustu. Þessir fundir hafa þó flestir eða allir verið haldnir að undirlagi Bolsonaros sjálfs og hans nánasta fylgdarliðs.

Nær 460.000 manns hafa dáið úr COVID-19 í Brasilíu samkvæmt opinberum gögnum og hálf fimmtánda milljón hefur greinst með sjúkdóminn. Talið er að mun fleiri hafi hvort tveggja smitast og dáið úr COVID-19 en þessar tölur segja til um.