Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sóttvarnareglur ekki hertar í Færeyjum að sinni

Mynd með færslu
 Mynd: Kringvarp
Ekki stendur til að herða sóttvarnareglur í Færeyjum þrátt fyrir að 48 séu með COVID-19 í eyjunum. Ekki hafa fleiri smit greinst í vikunni sem styrkir stjórnvöld í þeirri fyrirætlan sinni, en 500 eru nú í sóttkví.

Færeyska kringvarpið hefur eftir Bárði á Steig Nielsen, lögmanni Færeyja, að uppruni smitanna sé þekktur og að líklegast sé að búið sé að ná stjórn á aðstæðum.

Áfram verði fylgst gaumgæfilega með framvindu mála og reglur verði hertar ef þörf krefur. Bárður kveðst sannfærður um að almenningur fari að núgildandi sóttvarnareglum. 

Fyrr í vikunni kvaðst Lars Fodgaard Møller, landlæknir, telja að tekist hafi að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu veirunnar. Landstjórnin og heilbrigðisyfirvöld ákváðu að stöðva ýmsa viðburði í eyjunum eftir að kórónuveiran tók að láta á sér kræla að nýju fyrir rúmri viku.

Meðal annars var guðsþjónustum og íþróttaviðburðum aflýst og eyjarskeggjar voru beðnir um að flykkjast ekki á haf út eftir stórri grindhvalavöðu á mánudaginn var.