Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Söngvarinn B.J. Thomas látinn

epa09237045 (FILE) - US musician B.J. Thomas arrives at the Universal Hilton for the 2008 Hero Awards in Universal City, California, USA, 06 June 2008 (reissued 30 May 2021). According to his publicist, B.J. Thomas has died aged 78 on 29 May 2021.  EPA-EFE/JOSHUA GATES WEISBERG
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Söngvarinn B.J. Thomas látinn

30.05.2021 - 18:07

Höfundar

Bandaríski söngvarinn B.J. Thomas er látinn 78 ára að aldri. Íslendingar kannast sennilega helst við hann fyrir að syngja lagið Raindrops Keep Fallin' on My Head, úr vestranum Butch Cassidy and the Sundance Kid frá 1969.

Það voru þeir Burt Bacharach og Hal David sem sömdu lagið fyrir kvikmyndina og óhætt að segja að það hafi slegið rækilega í gegn. Á nokkrum mánuðum seldist það í tveimur milljónum eintaka vestanhafs. 

Lagið vermdi toppsæti vinsældalista í Bandaríkjunum, Kanada og Noregi og hlaut Óskarsverðlaun sem besta sönglag í kvikmynd á hátiðinni 1970. Billboard-tímaritið útnefndi það fjórða besta lag þess árs. 

Thomas greindist nýverið með lungnakrabbamein og lést á heimili sínu í Arlington í Texas í gær. Hann vakti fyrst athygli árið 1966 fyrir útgáfu sína af sveitaslagaranum I'm So Lonesome I Could Cry eftir Hank Williams. 

Tveimur árum síðar gaf hann út lagið Hooked on a Feeling sem náði inn á topp tíu á bandaríska Billboard-listanum. Á árabilinu 1977-1981 féllu B. J. Thomas fimm Grammy-verðlaun í skaut.

Hann átti við áfengis- og fíknivanda að glíma um skeið en frelsaðist og gerðist kristinn um miðjan áttunda áratuginn. Þá tók hann til við að gefa út hljómplötur með trúarlegum skírskotunum. 

Thomas var kvæntur söngkonunni Gloriu Richardson, þau skildu en tóku saman að nýju, og eignuðust saman þrjár dætur.