Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Segjast ganga óbundin til kosninga með undantekningum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fulltrúar þeirra flokka sem eiga sæti á þingi veltu upp mögulegu stjórnarmynstri í Silfrinu í morgun. Flest sögðust ganga óbundin til kosninga í haust en þó voru undantekningar á því. 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra útiloka ekki áframhaldandi stjórnarsamstarf. Þeim líði vel í núverandi samstarfi.

Flokkarnir gangi þó allir óbundnir til kosninga 25. september. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins vildi ekki útloka nokkurt samstarf, en varpaði fram kenningu um stjórnarmynstur.  

„Það stefnir allt í Reykjavíkurmódelið í landsmálum. Að mynduð verði þannig ríkisstjórn, líklega samt að Pírötum verði skipt fyrir Framsókn ef það dugar til.“
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir að ekkert breytist haldi núverandi stjórn áfram. Hún kveðst þó útiloka að útiloka nokkurn flokk.

„Það er allavega ljóst að það verður ekki vinstri stjórn ef Viðreisn er í stjórninni og það verður ekki einhver últra hægri stjórn ef Viðreisn er í stjórninni. Ég vil gjarna sjá frjálslynda miðjustjórn.“

Logi Einarsson formaður Samfylkingar og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður Pírata segjast ekki vilja eiga samstarf við Sjálfstæðis- og Miðflokk.

„Ekki vegna þess að þettta séu ekki ágætismenn. En við eigum ekki málaefnalegan grunn og við viljum byggja græna félagshyggjustjórn hérna eftir kosningar sem getur verið samstillt,“ sagði Logi. Þórhildur sagði skipta máli að finna fólk sem vildi auka gagnsæi í stjórnmálum.

„Mér finnst bara skipta máli að við finnum fólk sem er til í berjast gegn spillingu og hætta þessari meðvirkni. Þessari endalausu meðvirkni með spillingu hérna á Íslandi. Til þess þurfum við bara því miður að útiloka samstarf við Sjálfstæðisflokkinn og Miðflokkinn.“ 

Inga Sæland formaður Flokks fólksins segir ómögulegt að segja nú með hverjum hún gæti starfað enda snúist stjórnmál um málamiðlanir.

„Ég skal alveg taka að mér að leiða þessa ríkisstjórn og redda næstu ríkisstjórn. Ég get alveg lofað ykkur því að ég mun byggja brú milli þeirra sem allt eiga og hinna sem ekkert eiga. Það yrði meiri jöfnuður.“