Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Gauti hafnar þriðja sætinu

Mynd með færslu
 Mynd: Gauti Jóhannesson - RÚV/Rúnar Snær Reynisson
Gauti Jóhannesson, forseti sveitarstjórnar Múlaþings, ætlar ekki að taka þriðja sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Gauti sóttist eftir því að leiða listann en lenti í þriðja sæti í prófkjöri sem fram fór í gær.

„Ég sóttist eftir að leiða listann, það varð ekki og af þeim sökum mun ég ekki sækjast eftir að taka sæti á lista Sjálfstæðisflokksins við kosningar til Alþingis í haust,“ segir Gauti í færslu á Facebook í dag. Hann segir að sér sé efst í huga auðmýkt og þakklæti til þeirra fjölmörgu sem hafi lagt sér lið í baráttunni. „Úrslitin eru mér vonbrigði en vilji kjósenda er skýr og við niðurstöðuna verður að una.“

Njáll Trausti Friðbertsson þingmaður fékk flest atkvæði í fyrsta sætið og verður því nýr oddviti Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu. Berglind Ósk Guðmundsdóttir, lögfræðingur og varabæjarfulltrúi á Akureyri, varð í öðru sæti og Berglind Harpa Svavarsdóttir, formaður byggðaráðs Múlaþings, í fjórða sæti.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, gaf ekki kost á sér til endurkjörs eftir fjórtán ára setu á Alþingi.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV