Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Betra að sötra gos úr áldós en glerflösku

30.05.2021 - 20:26
Mynd með færslu
 Mynd: eva elijas/pexels
Þó gler þyki fínt og sé úr náttúrulegu efni er kolefnisspor einnota glerflaskna mun stærra en plastflaskna eða áldósa. Verslunareigandi sem nýtir sömu glerflöskurnar aftur og aftur, vill stóraukna áherslu á endurnýtingu.

Ál og endurunnið plast skástu kostirnir

Hvaða drykkjarumbúðir eru skástar fyrir loftslagið? Þessi spurning hefur brunnið á mörgum. Svarið datt nýlega inn á Vísindavefinn. Horft er á alla losunina sem fylgir tómum umbúðum; framleiðsluna, flutninginn og í hvaða farveg ílátið ratar hér á Íslandi. Niðurstaðan er sú að hálfslíters áldós er örlítið skárri en hálfslíters plastflaska. Ef flaskan er að helmingnum til úr endurunnu plasti, svokölluðu rPET-plasti þá minnkar sporið talsvert, en verst er að drekka úr einnota glerumbúðum. Gögnin byggja á útreikningum verkfræðistofunni Eflu. „Þar kemur alveg í ljós að umbúðirnar skipta máli, þetta eru litlar framleiðslueiningar í sjálfu sér. Í tilfelli plastflaskna þá eru þær unnar úr olíu, það er þungt og mikið ferli sem á sér stað til að framleiða plast. Fyrir álið þarf að vinna báxít og súrál og ál áður en við fáum tilbúna vöru, áldós, og glerið sömuleiðis er mjög orkufrekt ferli þó það sé unnið með náttúrulegum efnum,“ segir Alexandra Kjeld, umhverfisverkfræðingur hjá Verkfæðistofunni EFLU.

Glerið ekki endurunnið hér

Álið kemur aðeins betur út en plastið vegna þess að eins og er, er notað meira af endurvinnanlegu efni í áldósir hér á landi en plastflöskur. Þá er ál mjög endurvinnanlegt en plast síður. Spor glersins myndi skána ef farið væri að endurvinna það hér, það stendur til en hefur ekki verið gert hingað til, það er bara mulið og notað sem fyllingarefni á ruslahaugum. Greiningin tekur ekki til umhverfisáhrifa drykkjanna sem eru í umbúðunum eða hvort þær hafi verið fluttar fullar eða tómar til landsins.

Enginn munur í blindsmökkun

Sævar Helgi Bragason, stjörnufræðingur, skrifaði svarið sem birt var á Vísindavefnum. Hann hefur breytt háttum sínum. „Eftir að ég komst að þessu þá vil ég eingöngu dósir og ég er að berjast fyrir því hægt og rólega að hótel á Íslandi og veitingastaðir taki það upp frekar en að hafa gler. Okkur þykir yfirleitt svolítið fínna að hafa gler en dósir en bragðmunurinn í blindsmökkun er ekki nokkur þannig að umhverfisskásti kosturinn er þá að velja áldós sem inniheldur drykk sem er framleiddur á Íslandi.“

Hringrásarkerfi af gamla skólanum framtíðin

Þau nostalgísku þurfa kannski að fara að venja sig við að dýfa lakkrísrörinu ofan í áldós. En einnota er ekki eina lausnin. Í Nándinni lítill matarverslun í Hafnarfirði er búið að koma á hringrásarkerfi. Glerflöskum er skilað, þær þvegnar á þvottastöð, endurmerktar og fyllt á að nýju. „Þá ertu bara kominn með nýja flösku fyrir brotabrot af orkunni og ruslinu sem fylgir framleiðslunni,“ segir Kolbeinn Lárus Sigurðsson, einn af eigendum Nándarinnar. 

Yfir 60% flasknanna sem seljast skila sér aftur í verslunina. Nú eru um 6000 stykki í umferð. Alexandra segir þetta mikinn kolefnissparnað. „Að koma í veg fyrir að það sé verið að framleiða ný efni, það skiptir töluverðu máli.“

Kolbeinn hugsar stórt og vill sjá þessa hringrásarhugsun á stærri skala. „Við erum að láta okkur dreyma um einhverja skilagáma fyrir utan stórverslanir. Við erum bara að byrja.“