Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Veröld sem var ekki

Mynd: Gustave Courbet / Wikimedia commons

Veröld sem var ekki

29.05.2021 - 11:29

Höfundar

Halldór Armand Ásgeirsson, rithöfundur, fjallar um endurminninguna; það hvernig okkur dreymir um veröld sem var ekki, gullöldina sem var ekki okkar.

Halldór Armand Ásgeirsson skrifar:

Alla dreymir um fortíðina, ekki satt? Það er bara eitthvað við það hvernig mannshugurinn virkar að hann virðist sjá heiminn gegnum ljós liðins tíma. Ég lít svo á að þetta sé ein leið til að skilgreina fullorðinsár. Maður er orðinn fullorðinn þegar maður á sér raunverulega fortíð, fortíð sem maður minnist, fortíð sem litar upplifun manns af líðandi stund. Þessi fortíð er búin til úr einhverju sem mætti kalla skilgreinandi minningar, augnablikum sem skera sig úr og eru einstaklingsbundin. 

Það er stundum sagt að tímabil á æviskeiði fólks hafi færst til síðustu áratugi. Fertugsaldur sé nýi þrítugsaldurinn og svo framvegis. Ég er svo sem bara að láta hugann reika hérna en ég held að slíkar pælingar spretti ekki úr tómarúmi. Það er algjörlega viðtekið í dag að vera í menntakerfinu langt fram undir eða fram yfir þrítugt. Ungt fólk á í erfiðleikum með að komast inn á húsnæðismarkað og býr miklu lengur með foreldrum sínum. Í heimsfaraldri hefur jafnframt færst mikið í aukana að ungt fólk flytji aftur heim til foreldra sinna. Ég held að í þessum skilningi sé fólk þess vegna ungt lengur, ef svo má að orði komast, það þroskast hægar vegna þess að það eignast hægar og færri skilgreinandi minningar á hinu staðlaða færibandi menntakerfisins og í gamla unglingaherberginu sínu. 

Þetta er auðvitað mikil einföldun. En ég held að þetta sé einkenni á fullorðnu fólki. Þau sem maður mætir á göngu niðri við sjó, bréfberinn sem líður um göturnar á rafvagni, konan sem velur papriku í grænmetisdeildinni í Nettó. Ég segi sjálfum mér að allt þetta fólk eigi sér einhvern draum um fortíðina, einhverja skilgreinandi endurminningu, einhverja gullöld, sem það óskar sér að geta endurheimt. 

Líf Ívans Ilyich

Þegar Ívan Ilyich liggur þjáningarfulla banaleguna í meistaraverki Tolstoys, Dauði Ívans Ilyich, á hann samtal við sína eigin sál sem spyr hann hvað hann vilji. Ívan segist vilja losna undan sársaukanum og lifa áfram. Lifa áfram? spyr þá röddin innra með honum. Hvernig? 

Ég vil lifa lífinu eins og það var einu sinni, svarar Ívan Ilyich, hamingjuríkt og gott. 

„Og í huganum fór hann að horfa yfir bestu tíma lífs síns. En það sem var skrýtið var að allir þeir bestu tímar sem hann hafði upplifað í sínu góða lífi virtust ekki líkjast því sem þeir voru áður. Ekkert gerði það nema fyrstu minningarnar úr barnæsku hans. Þarna, í æsku hans, var að finna einhverja sanna hamingju sem hann hefði getað lifað aftur. En manneskjan sem upplifði þá hamingju var ekki til lengur; það var eins og að muna eftir einhverjum öðrum.“ 

Sjálfur trúi ég því að endurminningin sé ein skýrasta vísbendingin um að það sé eitthvað bogið við það hvernig við upplifum tímann. Time is out of joint, segir Hamlet. Tíminn er úr lið. Þetta segir hann í kjölfarið á því að hafa hitt draug hins myrta föður síns. Kannski er hann að hugsa um einmitt þetta, hvernig það er stundum eins og ekkert aðskilji hið liðna og augnablikið hér og nú. Látinn faðir hans er snúinn aftur, það sem var horfið er komið aftur, að það sé engin raunveruleg aðgreining milli þess sem gerðist einu sinni og þess sem gerist núna. 

Það má vitaskuld hæglega finna darwinískar ástæður fyrir því að við munum hluti yfirhöfuð. En ég hneigist til að halda að hluti af því að upplifa lífið sé að muna eftir því. Lífið er upprifjun. Þegar eitthvað merkilegt eða minnisstætt gerist þá er það hluti af sjálfu augnablikinu að rifja það upp síðar meir, þar sem það heldur áfram að verða til, merkingin skýrist eða brenglast. Eins og milli tveggja skýjakljúfa liggur strengur milli upplifunarinnar og endurminningarinnar. Langt, langt fyrir neðan streymir umferð tímans í allar áttir. Þess vegna trúi ég því að þegar konan sem ég horfi á brjóta heilann um réttu paprikuna og rifjar á sama tíma upp eitthvað merkilegt sem markaði vatnaskil í hennar lífi þá sé þetta augnablik í grænmetisdeildinni í Nettó hluti af þeirri upplifun, strengurinn liggur yfir tímanum.

Ég var einu sinni (ekki) einhver

Nostalgían, draumurinn um gullöldina, toppformið, þegar allt gekk að óskum og lífið var einn stór möguleiki, þegar lífið var, eins og Ívan Ilyich segir, hamingjuríkt og gott. Þetta held ég að allir kannist við. En síðan er til annars konar endurminning, annars konar draumur um fortíðina. Ég veit ekki til þess að til sé neitt orð yfir þessa tilfinningu. Það er endurminningin um lífið sem var aldrei þitt, draumurinn um fortíðina sem þú varst ekki hluti af, bók um veröld sem var ekki. Þetta er munurinn á því að dreyma um að vera landsliðsmaður eða landsliðskona í fótbolta, sem er draumur um núið sem er ekki, og að dreyma um að hafa einu sinni verið í unglingalandsliðinu, sem er draumurinn um það var ekki, vera ungur og fagur og með geggjaða klippingu og ofboðslega góður í fótbolta, en bera samt ekki ábyrgð á neinu, ferðast um heiminn, vinna Noreg 0-1 varnarsigur í Þrándheimi, fá síðan ekki tækifæri í meistaraflokki, láta mótlætið ná til sín, fá áhuga á djamminu, æ, það er nú margt annað spennandi í lífinu en fótbolti … hverfa inn í allt annað líf, verða hagfræðingur, verða rithöfundur, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, en eiga alltaf landsliðsstuttbuxurnar sem þú notaðir í leik, mæta í þeim í bumbubolta og rústa öllum, vera allt í einu týpan sem á ekki að vera ógeðslega góður í fótbolta en er það samt. Hey, hann spilaði víst bæði með U-17 og U-19. Þetta er draumurinn um fortíðina sem var ekki. 

Eitt besta dæmið um þetta úr mínu lífi er myndbandið við lagið Someday með The Strokes. Myndbandið er í stuttu máli sett saman úr alls konar svipmyndum af afslöppuðum gleðiaugnablikum úr heimi hljómsveitarinnar. Meðlimir hennar eru allir ofboðslega fagrir, miklir töffarar og óaðfinnanlega til fara. Þeir drekka kókglas með röri, fá sér innismók, hlæja og drekka bjór með frægum vinum sínum. Það er einhver nostalgía yfir þessu öllu saman, Edenskeimur, við horfum til baka inn í gullöldina, sem helst í hendur við angurværðina í upphafsgítarhljómunum og svo auðvitað textann:

In many ways, they’ll miss the good old days.
Someday. Someday.

Syngur Julian Casablancas.

When we was young, oh man did we have fun.
Always. Always. 

Það er freistandi að líta svo á að þetta myndband, sem ég get horft endalaust á, fangi einhvers konar draum hljómsveitarinnar The Strokes um sjálfa sig, um sína eigin gullöld, nema hvað að Someday er reyndar fimmta lagið á fyrstu plötunni, Is This It, sem kom út árið 2001. Það er þess vegna engin fortíð til þess að dreyma raunverulega um. Það væri annað mál ef Someday væri lag á einhverri plötu með Strokes frá 2017, en myndbandið væri hið sama. 

Þvert á móti held ég að þetta myndband hafi leynt og ljóst verið skapað til þess að veiða menn eins og sjálfan mig í gildru. Menn sem dreymir um fortíð sem þeir voru ekki hluti af. Menn sem dreymir um að hafa einu sinni verið mjór gallajakkarokkari í gömlum Converse-skóm sem fékk sér innismók og flöskubjór á bar og seldi plötur í milljónatali í félagi við aðra listaháskólagengna afkomendur auðmanna í New York í upphafi aldarinnar. Þetta er fortíðin sem aldrei var, gullöldin sem aldrei átti sér stað, fortíðin sem mig dreymir samt um.

Lífið er endurminning um það sem gerðist aldrei. Endurminningin er fljótandi eins og vökvi. Þú kreppir lófann utan um hana. En hún rennur þér úr greipum.

 

Tengdar fréttir

Pistlar

Um einkahúmor og vináttu

Pistlar

Græn fátækt er framtíðin

Trúarbrögð

Draumur um krossfestingu

Pistlar

Við erum ekki öll almannavarnir