Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Trampólín og hjólhýsi fuku í veðurhamnum

Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Björgunarsveitir voru kallaðar út á höfuðborgarsvæðinu síðdegis í gær til að bregðast við foki lausamuna á borð við kerra, trampólína, þakkanta, klæðninga og jafnvel hjólhýsa. Bálhvasst var á suðvesturhorninu í gær enda sinntu björgunarsveitir og lögregla ýmsum útköllum vegna þess fram á tólfta tímann í gærkvöld.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handók mann í vesturbæ Reykjavíkur vegna líkamsárásar og heimilisofbeldis. Var sá vistaður í fangaklefa líkt og annar sem handtekinn var í miðborginni í svo annarlegu ástandi að hann var ekki talinn í ástandi til að vera úti meðal fólks.  

Maður var handtekinn við innbrot í Efra-Breiðholti, mjög ölvaður. Lögreglan tók hann í sínar vörslur og vistaði í fangaklefa. Hans bíður skýrslutaka þegar af honum rennur. Einnig var tilkynnt um þjófnað úr verslun á svæði 108 en það mál var afgreitt á staðnum. 

Að því er fram kemur í dagbók lögreglu voru ellefu stöðvaðir fyrir akstur undir áhrifum áfengis og eða fíkniefna. Einnig mun allur gangur hafa verið á því hvort þessir ökumenn væru með ökuréttindi.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV