Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Gagnrýna að sálfræðiþjónusta sé enn ekki niðurgreidd

Mynd með færslu
 Mynd: pexels
Heilbrigðisráðherra hefur ekki samið við Sjúkratryggingar um niðurgreiðslur á sjálfræðiþjónustu fullorðinna þó fimm mánuðir séu liðnir frá því heimild til þess var veitt í lögum. Grafalvarlegt segir formaður Geðhjálpar. Formaður Sálfræðingafélagsins sakar stjórnvöld um hægagang. Fjölmargir hafi ekki efni á geðheilbrigðisþjónustu. 

15-20 þúsund krónur

Sálfræðingar starfa nú á flestum heilsugæslustöðvum. Viðtal við þá kostar á við tíma hjá lækni en það eru oft langir biðlistar. Þeir sem komast ekki að geta leitað til sjálfstætt starfandi sálfræðinga á stofu. Viðtal hjá slíkum kostar 15-20 þúsund krónur og er ekkert niðurgreitt af ríkinu. „Venjulegt fólk hefur ekki það mikið á milli handanna að það geti veitt sér þetta, því sálfræðimeðferð er kannski tíu tímar, eða tuttugu tímar,“ segir Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar. Kostnaðurinn hleypur þá jafnvel á hundruðum þúsunda.

Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að það væri mikil bót falin í því að auka aðgengi og minnka kostnað, ljóst sé að núverandi kerfi uppfylli ekki þarfir allra, sérstaklega ekki fullorðinna. 

Lög tóku gildi um áramót

Síðastliðið sumar voru lög um greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands í sálfræðimeðferð fyrir fullorðna samþykkt á Alþingi. Í lögunum kemur fram að setja þurfi reglugerð til að ákveða nánar um framkvæmd laganna, skilyrði og takmarkanir. Heilbrigðisráherra segir unnið að samningi, en hann er ekki í höfn. „Það er auðvitað grafalvarlegt mál, sérstaklega í þeirri stöðu sem við erum núna,“ segir Grímur og vísar til þess að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hafi varað við alvarlegum afleiðingum faraldursins á geðheilbrigði og hvatt þjóðir til að bregðast við. 

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Grímur Atlason

Sálfræðingafélagið gagnrýnir stjórnvöld fyrir hægagang

Tryggvi Guðjón Ingason, formaður Sálfræðingafélags Íslands telur stjórnvöld hafa verið svifasein. Félagið hafi orðið fyrir vonbrigðum. „Þetta er að gerast allt of hægt og allt of seint.“ Þetta hefur verið baráttumál félagsins lengi. Tryggvi segir að biðlistar séu langir og mikið verk að vinna. „Það þarf alla sálfræðinga sem tiltækir eru í þessa vinnu og svo er það það viðhorf almennings að sálfræðiþjónusta eigi að vera á blönduðu formi, veitt af hendi hins opinber og af hendi sjálfstætt starfandi,“ segir Tryggvi. Þetta viðhorf sé annað en gagnvart flestri annarri heilbrigðisþjónustu og kannanir sýni að fólk vilji að hærra hlutfall af tekjum ríkisins renni til heilbrigðismála. 

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Tryggvi Guðjón Ingason.

Heimild til samnings

Tryggvi segist hafa væntst þess að lögin myndu jafna aðgengi að sálfræðiþjónustu þannig að hún yrði jafngild annarri heilbrigðisþjónustu og fólk gæti nýtt hana óháð fjárhagsstöðu. 

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, segir lögin fyrst og fremst veita heimild til samnings. „Frumvarpið snerist um að það væri heimilt að semja við sálfræðinga, sjálfstætt starfandi eins og aðrar heilbrigðisstéttir, en ekki um að öll þjónusta væri gjaldfrjáls. Við erum bara að stíga skref inn í þann veruleika og algerlega í samræmi við lögin,“ segir Svandís. 

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Svandís Svavarsdóttir.

 

En hvað um jafna aðgengi að þjónustunni? „Ja við sjáum hvað setur, geðheilbrigðismálin snúast líka um forvarnir og við þurfum að passa vel upp á hvert annað,“ segir hún. Mætt hafi mikið á fjölskyldum í heimsfaraldrinum og fólk þurfi að vera til staðar hvert fyrir annað. Hún nefnir að í fjáraukalögum hafi verið samþykkt að verja 600 milljónum til geðheilbrigðismála almennt, vegna áhrifa faraldursins á geðheilsu. 

Fjármálaráðherra lýsti því yfir í samtali við Bylgjuna, strax og frumvarpið var samþykkt, að því fylgdi ekkert fjármagn og það myndi því litlu breyta á næstunni. Í þinginu var seinna rætt um að hundrað milljónir færu í verkefnið. Grími Atlasyni, framkvæmdastjóra Geðhjálpar, finnst það lítið, þó hann fagni lögunum. „Þetta er svona tveggja herbergja íbúð á Hafnartorgi, einn fimmtándi af ferðagjöfinni, auðvitað eru það litlir peningar í stöðunni.“ Það skipti máli að auka aðgengi að þjónustunni þó Geðhjálp tali líka fyrir fleiri lausnum, svo sem óhefbundnari meðferðarúrræðum, engin ein lausn henti öllum. 

Tryggvi Guðjón, formaður Sálfræðingafélagsins, segir mikilvægt að semja sem fyrst. Nýlega hafi Sjúkratryggingar auglýst eftir því að hefja viðræður við fyrirtæki sem vilji taka að sér að veita sálfræðiþjónustu. „Allt samtalið er eftir, auk þess er þetta mjög þröngt skilgreint hverjir gætu tekið þetta að sér,“ líklega verði ekki margir sem uppfylli kröfurnar.