Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vökvar skraufþurr túnin til að koma sprettu af stað

Mynd með færslu
 Mynd: Facebook/Kristinn Svavarsson
Bóndi í Skagafirði hefur gripið til þess ráðs að vökva hjá sér túnin til að koma af stað einhverri sprettu. Hann segir að túnin séu að skrælna, áburðurinn liggi á þeim og engin rigning sé í kortunum.

Það hlýnaði snögglega á Norðurlandi eftir kalda daga og næturfrost síðustu vikur. Margir bændur hafa þegar borið á tún, bæði skít og tilbúinn áburð, en sprettan er lítil enda túnin þurr.

Vantar vætu til að skola áburðinum niður í jarðveginn

Kristinn Sævarsson, bóndi á Hamri í Skagafirði, segir að túnin hafi þó grænkað eftir að það tók að hlýna. „Svo þegar maður fer að labba um túnin og horfir ofan í svörðinn, þá sér maður að áburðurinn sem við bárum á fyrir tveimur til þremur vikum, hann liggur bara enn þá. Af því að það vantar vætuna til að skola honum niður.“ 

Vinnan næstu daga að vökva túnin

Og til að bæta úr því hefur hann nú gangsett vökvunarbúnað sem hann fjárfesti í fyrir tveimur árum, en hefur ekkert notað fyrr en nú. „Það verður bara vinnan næstu daga, það er að reyna að komast yfir eins mikið og við getum. Og þar sem við komumst í vatn og svoleiðis.“

Nær ekki að vökva nema 2-4 hektara á dag

Landareignin á Hamri er tæpir hundrað hektarar og Kristinn segir að þótt dælan afkasti um 60 tonnum á klukkustund náist ekki að vökva nema tvo til fjóra hektara á dag. „Það þyrfti náttúrulega að vökva allt. En eins og ég segi, við reynum bara að komast yfir eins mikið og við getum.“

Vökvunarbúnaður almennt ekki til í íslenskum búskap

Svona vökvunarbúnaður er almennt ekki til í íslenskum búskap, enda hafa bændur ekki talið réttlætanlegt að kaupa svo dýran búnað fyrir fá skipti. En vera má að það kunni að breytast miðað við hvernig staðan er núna. Kristinn segist strax sjá árangur þar sem búið er að vökva. „Maður sér að áburðinum hefur skolað niður og útlitið á grasinu er strax betra. Svo bara vonast maður til þess að það fari að spretta meira.“