
Vinnumálastofnun fær stöðugt ábendingar um bótasvindl
Svara ekki eða áhugalaus um vinnu
Eitt af fjölmörgum átökum stjórnvalda í faraldrinum, Hefjum störf, hófst í mars með það markmið að skapa sjö þúsund tímabundin störf með um fimm milljörðum króna úr ríkissjóði. Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, sagði í Kastljósi í gær að fyrirtækjum gangi illa að ráða fólk af skrá Vinnumálastofnunar þar sem ýmist sé ekki svarað í símann, fólk hafi ekki áhuga á starfinu eða bara vinnu yfir höfuð. „Og þetta er náttúrulega alveg hræðileg staða og ótrúlegt að þetta geti viðgengist í okkar samfélagi í dag,” sagði Bjarnheiður.
Vilja fá tilkynningar
Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, segir hins vegar að svona hegðun viðgangist alls ekki en til að hægt sé að beita viðurlögum þurfi að berast tilkynningar frá atvinnurekendum.
„Þannig að við fáum að vita hvaða fólk það er sem er að skjóta sér undan því að taka starfi,” segir Unnur. „Við erum alltaf að fá svona ábendingar. Alveg stöðugt.”
Unnur segir að Vinnumálastofnun sé fyrst núna að sjá árangurinn af átakinu og nákvæmar tölur verði tilbúnar í júní. „En þetta er náttúrulega gríðarlegur fjöldi fólks og gríðarlegur fjöldi starfa þannig að þessi mál verða örugglega líka mjög mörg.”
Geta verið svipt bótarétti
Og athæfin eru alls ekki refsilaus. „Við lítum það mjög alvarlegum augum ef fólk þiggur ekki starf eða lætur ekki ná í sig. Það er þannig. Og ef það verður uppvíst að því og það er sannað að þú hefur hagað þér þannig, þá missirðu bæturnar fyrst í tvo mánuði, ítrekun er þrír mánuðir og ef þetta gerist í þriðja sinn þá er fólk tekið út úr kerfinu og verður að vinna sér inn nýjan rétt sem það gerir með því að þurfa að vinna í 24 mánuði samfellt,” segir Unnur. Hún bætir við að nú sé hafið átak hjá Vinnumálastofnun, meðal annars til að auka eftirlit með fólki sem svindlar á kerfinu. Unnur kallar eftir aukinni samvinnu við atvinnurekendur.
„Það er hagur okkar allra að finna það fólk sem er ekki í atvinnuleit en er að fá atvinnuleysistryggingar. Við viljum alveg endilega hafa upp á því.”