Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Vilja banna silungsveiðar í net í Skjálfandaflóa

28.05.2021 - 14:36
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RÚV
Skipulags- og framkvæmdaráð Norðurþings hefur brugðist hart við áformum Fiskistofu um að banna netaveiði á göngusilungi í sjó í Skjálfandaflóa. Þrjú veiðifélög á vatnasvæði Laxár í Aðaldal hafa farið fram á að netaveiði verði bönnuð þar sem lax veiðist einnig í þessi net.

Fiskistofa áformar að banna netaveiði á göngusilungi í Skjálfanda í allt að fimm ár, 2021-2025, 10. júní til 10. ágúst ár hvert.

Hafrannsóknastofnun styður bann við netaveiði

Hafrannsóknastofnun mælir með banninu og í umsögn hennar til Fiskistofu segir stofnunin ljóst að fiskistofnar á vatnasviði Laxár eigi undir högg að sækja og stærð göngustofna sé í sögulegu lágmarki. Varasamt geti því verið að stunda silungsveiði í sjó í nágrenni árinnar, bæði vegna mögulegs meðafla á laxi í netin og vegna óvissu um uppruna og stöðu þeirra sjóbleikjustofna sem veitt er úr.

Segja að lax veiðist í net sem lögð eru fyrir silung    

Í bréfi Veiðifélags Laxár í Aðaldal, Veiðifélags Mýrarkvíslar og Veiðifélags Reykjadalsár og Eyvindarlækjar, til Fiskistofu, segir að lengi hafi verið vitað að lax veiðist í net sem lögð eru fyrir göngusilung, einkum smálax. „Orðrómur hefur verið um að einstaka netaveiðiaðilar hafi sum sumur fengið vel á annan tug laxa. Jafnvel þótt að við gefum okkur það að laxinum sé sleppt úr netunum er ljóst að hann lifir slíka meðferð ekki af og drepst,“ segir meðal annars í bréfi veiðifélaganna. Þá efast þau um að bleikjustofnar á svæðinu þoli netaveiði, auk þess sem í netin veiðist sjóbirtingur.

Hafnar banni við nýtingu Norðurþings á hlunnindum

Skipulags- og framkvæmdaráð Norðurþings tók erindi Fiskistofu fyrir í vikunni og hafnar alfarið banni við nýtingu Norðurþings á hlunnindum sem fylgja sjávarjörðum í eigu sveitarfélagsins. „Ekkert bendir til annars en að þær silungsveiðar sem stundaðar hafa verið fyrir landi Húsavíkur og byggja á þeim veiðiheimildum sem Norðurþing úthlutar árlega, séu bæði varfærnar og sjálfbærar, enda heimildir Norðurþings til úthlutunar veiðileyfanna bæði skýrar og óumdeildar og byggja á gildandi lögum um nýtingu hlunninda sjávarjarða,“ segir í bókun ráðsins.

Ætla að verjast málinu af fullum þunga 

Ljóst sé að umrædd atlaga veiðifélags Laxár í Aðaldal, og annarra sambærilegra félaga, sé ekki sú fyrsta þar sem sótt sé með jafn ómálefnalegum hætti að löglegri nýtingu hlunninda af hálfu eigenda sjávarjarða. „Verði málinu fram haldið á þeim forsendum sem lagt hefur verið upp með af hálfu veiðifélaganna og Fiskistofu, byggt á jafn einhliða, haldlitlum og illa ígrunduðum gögnum og raun ber vitni, sér sveitarfélagið Norðurþing sig knúið til þess að verjast málinu af fullum þunga.“