Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Varnir Suðurstrandarvegar fullmótaðar í næstu viku

Mynd með færslu
 Mynd: Emilía Guðgeirs - RÚV
Búast má við að kostir til varnar Suðurstrandarvegi verði fullmótaðir um miðja næstu viku. Hópur sérfræðinga vinnur nú að forhönnun mannvirkja og kostnaðargreiningu, að sögn Rögnvalds Ólafssonar aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

Rögnvaldur segir að enn sé mjög gott svigrúm til að bregðast við þannig að unnið sé af kostgæfni við vinnu og undirbúning. 

Sömuleiðis þurfi að skoða öll leyfismál auk þess sem bera þurfi kostina undir fjárveitingavaldið og þau stjórnvöld sem taki endanlegar ákvarðanir. Möguleg náttúruspjöll, segir Rögnvaldur að séu ávallt höfð í huga við hönnun mannvirkja og varðandi það hvaða leiðir verði farnar.

Rögnvaldur bendir á að ein leiðin sé að gera ekki neitt, að ákveðið verði að fara ekki í neinar framkvæmdir og leyfa hrauninu að renna yfir veginn. Hann telur þó ólíklegt að sú leið verði farin enda sé Suðurstrandarvegur mikilvægur, ekki síst sem flóttaleið fyrir Grindvíkinga.