Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Þota einræðisherra Rúmeníu boðin upp

28.05.2021 - 16:56
Erlent · Rúmenía · Uppboð · Evrópa · Viðskipti
In this handout photo provided by Artmark auction house, a 119-seat "Rombac One-Eleven", one of nine such passenger jets built in Romania which was used by communist dictator Nicolae Ceausescu for official trips between 1986 and 1989, is parked at a military base in Otopeni, Romania, May 4, 2021. An airplane used for official trips by Romania's late communist leader Nicolae Ceausescu will be put up for auction on May 27 with a starting price of 25,000 euros (30,000 USD). (Artmark via AP)
 Mynd: AP - Artmark uppboðshúsið
Einkaþota Nicolaes Ceausescus, fyrrverandi einræðisherra í Rúmeníu, var í dag seld á uppboði fyrir 120 þúsund evrur, um það bil 17,6 milljónir króna. Á annað hundrað safnarar og áhugamenn um flug og allt sem því við kemur tóku þátt í uppboðinu, ýmist á vefnum eða í síma. Lágmarksboð í þotuna var 25 þúsund evrur eða 3,7 milljónir króna.

Þotan er af gerðinni Rombac Super 1-11. Hún er ein af níu sem voru smíðaðar í Rúmeníu á níunda áratugnum með sérstöku leyfi frá bresku flugvélasmiðjunum BAC. Einræðisherrann notaði þotuna í opinberum erindagjörðum til annarra landa frá 1986-1989 þegar honum var steypt af stóli og tekinn af lífi ásamt Elenu, eiginkonu sinni. 

Í dag var einnig boðinn upp eðalvagninn Pykan Hillman Hunter. Hann hlaut Ceausescu að gjöf frá Íranskeisara árið 1974. Bíllinn var sleginn rúmenskum bílasafnara fyrir 95 þúsund evrur, tæplega fjórtán milljónir króna. 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV