Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sundurliðaðir álagningarseðlar aðgengilegir

28.05.2021 - 08:48
Mynd með færslu
 Mynd:
Einstaklingar geta nú nálgast álagningarseðla á vef Skattsins, en þeir eru nú aðgengilegir með breyttum hætti. Nú er sett fram myndrænt hvernig skattarnir skiptast á milli ríkis og sveitarfélaga og í hvaða málaflokka þeir renna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, en markmiðið með þessu er að auka gagnsæi um hvert skattgreiðslur almennings renna. Þannig fá skattgreiðendur nú yfirlit um hve háa fjárhæð þeir reiddu af hendi til sundurliðaðra málaflokka, svo sem heilbrigðismála, mennta- og menningarmála, samgöngumála og svo framvegis. 

„Það er mikilvægt að skattgreiðendur hafi sem skýrasta mynd af því hvert peningarnir renna og í hvaða hlutföllum. Fyrr en síðar vonast ég svo til þess að við getum gengið enn lengra, þannig að jafnvel verði hægt að skoða skiptinguna niður á einstaka stofnanir,“ er haft eftir Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, á vef ráðuneytisins. 

Við álagningu eru gerðir upp ofgreiddir og vangreiddir skattar vegna fyrra árs. Samkvæmt upplýsingum frá skattinum verða inneignir greiddar út 1. júní.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Stjórnarráðið
Nýtt útlit álagningarseðla.
andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV