„Staðurinn er eins og þegar pabbi labbaði út“

Mynd: Fjölnir Geir Bragason / Fjölnir Geir Bragason

„Staðurinn er eins og þegar pabbi labbaði út“

28.05.2021 - 13:05

Höfundar

„Til hamingju, pabbi, ég elska þig,“ segir Fjölnir Geir Bragason í tilefni dagsins. Bragi Ásgeirsson listamaður og faðir Fjölnis lést árið 2016 en hefði orðið níræður í dag. Sýning á verkum hans stendur nú yfir í Sundaborg 3.

Í dag klukkan fjögur geta áhugasamir gestir myndlistarsýningar Braga í Sundaborg fengið að skoða vinnustofu hans, sem stendur nokkurn veginn óhreyfð eins og hann skildi við hana árið 2016 við Austurbrún. Þar blasir við síðasta málverk hans á trönunum, sem hann var enn að mála þegar hann lést, hattur hans, símaskrá og eldhúspappírsrúlla svo eitthvað sé nefnt. Sonur hans, Fjölnir Geir Bragason oft kenndur við tattú, tók á móti Síðdegisútvarpinu á Rás 2 og sagði frá sýningunni sem hann og bræður hans standa fyrir í Sundaborg 3. „Staðurinn er eins og þegar hann labbaði út,“ segir Fjölnir um það sem fyrir augu ber á þrettándu hæð í Austurbrún.

Bragi hefði orðið níræður í dag en hann lést föstudaginn langa árið 2016. Sýningin sem sett hefur verið upp í tilefni af stórafmælinu er sett upp í Sundaborg 3 en gestum hennar gefst svo tækifæri til að kíkja á vinnustofuna á milli fjögur til sjö á föstudögum og tvö til sex á laugardögum og sunnudögum, næstu þrjár helgar.

Mynd með færslu
 Mynd: Fjölnir Geir Bragason
Bragi naut sín vel við störf í skýjunum með smáfuglunum

Vinnurýmið er staðsett í penthouse-íbúð í fjölbýlishúsi en þegar verið var að byggja það árið 1966 kom í ljós að lyftuvél í húsinu væri svo hávær að það væri erfitt fyrir íbúa að þola hávaðann. Bragi var hins vegar heyrnarlaus svo lyftuvélin truflaði hann ekkert við störf.

Í húsinu stundaði hann myndlist frá því húsið var byggt og þar til hann lést fimmtíu árum síðar. Þar vann hann að olíuverkum, grafík og teikningum og undi sér vel, að sögn Fjölnis. „Hér leið honum vel í skýjunum með smáfuglunum sem sungu fyrir hann í þögninni. Hann heyrði ekki neitt en gerði mikið af fuglamyndum,“ segir hann. „Fyrir okkur í fjölskyldunni og þá sem vilja kynnast honum, að geta gengið inn í þetta rými er magnað. Þú getur beisiklí komið til fundar við kallinn.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Sýningin opnar klukkan fjögur í Sundaborg og Fjölnir ráðleggur gestum að gefa sér tíma til að njóta hennar. „Að sjálfsögðu verður kaffi á boðstólum og eitthvað léttara undir tönn. Hann á afmæli og fannst ekkert leiðinlegt að fá sér,“ segir hann.

Hann segir mikilvægt að varðveita verkin þó það verði ekki hægt að gera við hans eigin verk eftir hans dag, en Fjölnir starfar sem húðflúrari. „Mín verk fara í gröfina með kúnnunum þegar þar að kemur, en hans eru til,“ segir hann. „Til hamingju, pabbi, ég elska þig,“ bætir hann við að lokum.

Rætt var við Fjölni Geir Bragason í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.

Tengdar fréttir

Myndlist

„Þetta er musteri pabba“

Myndlist

Fjölnir leitar fyrsta flúrarans á Íslandi