Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Lilja um skæruliðadeild Samherja: „Ósmekklegt“

28.05.2021 - 19:00
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Menntamálaráðherra segir að tilraunir starfsmanna á vegum Samherja til að hafa áhrif á formannskjör í Blaðamannafélagi Íslands hafi verið ósmekklegar. Hún segir mikilvægt að tryggja frelsi fjölmiðla hér á landi.

Svokölluð „skæruliðadeild“ Samherja reyndi í vor að hafa áhrif á formannskjör í Blaðamannafélagi Íslands. Þetta kemur fram í umfjöllun Kjarnans og Stundarinnar sem var unnin upp úr tölvupóstsamskiptum og samtölum milli fólks í spjallforriti.

Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra segir þetta vera gagnrýnisvert.

„Mér finnst þetta vera ósmekklegt. Það er verið að reyna að hafa áhrif á atburðarás og við þurfum auðvitað að tryggja frelsi fjölmiðla hér á Íslandi,“ segir Lilja.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur sagt að mögulega þurfi að breyta fjölmiðlalögum vegna þessa máls til að styrkja stöðu fjölmiðla og blaða-og fréttamanna. Lilja tekur undir það.

„Það er eitt af því sem við höfum verið að skoða hvort það sé hægt að styrkja frelsi og verndina enn frekar,“ segir Lilja.

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV