Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Landlæknir styður bann við rekstri spilakassa

Mynd með færslu
 Mynd: Pexels
Landlæknisembættið styður að bann verði lagt við rekstri spilakassa á Íslandi. Þetta kemur fram í umsögn embættisins um frumvarp tveggja þingmanna þar sem gert er ráð fyrir slíku banni.

Tvö félög hafa nú leyfi til reksturs spilakassa. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ríkissjóður bæti þeim tekjutap í fjögur ár eftir rekstri spilakassa er hætt.

Í umsögn landlæknisembættisins segir að erlendar rannsóknir á spilafíkn sýni að notkun spilakassa sé sú gerð fjárhættuspila sem helst tengist spilafíkn. Þau sem spili séu blekkt til að halda að þau hafi stjórn á leiknum með tíðni smárra vinninga.

Niðurstaðan sé háð tilviljunum og möguleikar spilara til að stöðva snúningshjól kassans ýti undir þá tálsýn þeirra þótt niðurstaðan sé alltaf ákveðin.

Spilakassar voru bannaðir í Noregi árið 2007 og í umsögn landlæknisembættisins kemur fram að 90% þeirra Norðmannna sem leituðu sér aðstoðar vegna spilafíknar stunduðu spilakassa.

Jafnframt er vitnað í sænska rannsókn sem sýndi að 70% af veltu spilakassa sé frá fólki með spilavanda.

Í frumvarpinu, sem Inga Sæland og Guðmundur Ingi Kristinsson þingmenn Flokks fólksins lögðu fram, er gert ráð fyrir að rekstur spilakassa verði með öllu bannaður.  

Gert er ráð fyrir að eigendum Íslandsspila, Rauða krossinum og Slysavarnarfélaginu Landsbjörg verði tryggt fjárframlag vegna tekjumissis á hverju ári fram til ársins 2021 og SÁÁ einnig þótt samtökin hafi slitið tengsl sín endanlega við Íslandsspil í apríl.

Jafnframt skuli ráðherra gera samning við Háskóla Íslands um uppbyggingu og viðhald fasteigna og jafna tekjutap skólans af rekstri spilakassa á móti slíkum greiðslum.

Frumvarpið er nú til umfjöllunar í allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis. Samtök áhugafólks um spilafíkn kölluðu í nóvember eftir að lögum um spilakassa yrði breytt og leyfi til reksturs þeirra afturkölluð.