Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Helsingi nemur land á áður hulinni eyju í Jökulsárlóni

28.05.2021 - 19:31
Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Gæsategundin helsingi tekur hlýnun jarðar fagnandi og hefur numið land á eyju í Jökulsárlóni sem kom í ljós þegar jökullinn hopaði. Þar er stærsta helsingjavarp á landinu. Fréttamenn RÚV urðu fyrstir fjölmiðlamanna til að stíga fæti á eyjuna í vikunni. 

Hópur vísindamanna er mættur við Jökulsárlón snemma morguns. 

„Við erum að fara út í Skúmey og þar ætlum við að telja öll helsingjahreiður,“ segir Kristín Hermannsdóttir, forstöðumaður Náttúrustofu Suðausturlands. 

Þessi leiðangur hefur verið farin flest vor frá árinu 2014. RÚV varð í vikunni fyrst fjölmiðla til að fá að fara út í litlu eyjuna Skúmey.

„Ég býst við að finna fleiri hreiður en í fyrra. Við fundum þá tæp 1500 hreiður. Þetta er stærsta helsingjavarp á Íslandi. Við erum með svolítið einstakt svæði. Það kemur enginn þarna og það má enginn koma þarna nema rannsóknarmenn eða fólk með leyfi frá þjóðgarðinum,“ segir Kristín.

Eyjan er því friðuð og ekki má fljúga dróna í Vatnajökulsþjóðgarði nema með sérstöku leyfi frá þjóðgarðinu. 

Eyjan lætur ekki mikið yfir sér og er nefnd eftir fuglategundinni skúmi sem stillir sér hér upp fyrir Guðmund Bergkvist myndatökumann. Skúmur eru þó í algjörum minnihluta í Skúmey þar sem helsingi ræður ríkjum.

Hvernig lítur þetta út núna í eynni?

„Bara þokkalega. Það er alveg fullt af hreiðrum. Við vorum viku seinna á ferðinni í fyrra. Þá voru komnir fleiri ungar og eggin að klekjast út. En ég er bara búin að sjá einn unga og eitt hreiður þar sem eggin eru að klekjast út,“ segir Kristín.

Lilja Jóhannesdóttir, fuglafræðingur hjá Náttúrustofu Suðausturlands, var mætt með ílát með vatni og setti egg úr hreiðri ofan í. 

„Ég er sem sagt að meta álegustig eggjanna. Þannig að við fáum hugmynd um hvenær þau muni klekjast,“ segir Lilja.

Innihaldið í nýorpnu eggi er fljótandi og þungt.

„Svo byrjar fóstrið náttúrulega að þroskast og samfara því eykst holrýmið inni í egginu. Þannig að eftir því hvernig eggið flýtur fáum við hugmynd um hversu langt álegan er komin.  Við sjáum að eggið stendur á botninum og það segir mér að álegustigið sé númer fjögur og það þýðir að álegan er hálfnuð. Þannig að síðasta egginu hér var líklega orpið fyrir um tólf dögum síðan,“ segir Lilja.
 
Þó svo að skúmar gæði sér gjarnan á eggjum eru helsingjar grænmetisætur og vilja bara gras og annan gróður en lítið er af þvi í Skúmey.

„Hann sækir hérna í skjólið og öryggið. Hérna er vernd fyrir afræningjum. Tófa kemst illa hérna út,“ segir Lilja.

Einnig er fylgst með útlínum eyjunnar og gróðurfari. 

„Við svona viljum meina að þetta sé okkar Surtsey,“ segir Kristín.

Enginn vissi af eyjunni fyrr en tiltölulega nýlega því hún var undir jökli.

„Hún er að byrja að koma undan jökli 1977, 1978. Og síðasti jökullinn er að fara af eyjunni hérna norðan megin í kringum 2000. Þannig að elsti hlutinn er um fertugt og yngsti hlutinn ekki nema rúmlega tvítugur,“ segir Kristín.

Fyrstu tölur úr hreiðurtalningu lágu svo fyrir.

„Þetta eru svona rúmlega nítján hundruð hreiður. Þetta er heilmikil fjölgun frá því sem var í fyrra,“ segir Kristín. Í fyrra voru hreiðrin 1.495 talsins.

 

Myndataka: Guðmundur Bergkvist
Klipping: Karl Newman

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV