Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Gleymdi að vera leikari

Mynd: - / Íslenska óperan

Gleymdi að vera leikari

28.05.2021 - 10:54

Höfundar

Nú hafa bækur Gunnars Helgasonar öðlast nýtt líf með kvikmynda- og leikritaaðlögunum og segir rithöfundurinn tilfinninguna vera ótrúlega. Sjálfur stóð hann agndofa og horfði á meðleikara sína þegar hann átti að fara með línur.

Út er komin ný barnabók eftir Gunnar Helgason, aðeins örfáum mánuðum eftir hans síðustu, sem hét Barnaræninginn. „Ég ætlaði ekkert að skrifa Palla Playstation,“ segir hann í viðtali í Morgunútvarpi Rásar 2. Að síðustu hefur hann lesið upp fyrir skólakrakka í gegnum fjarfundabúnað en fundirnir enduðu iðulega á því að börnin óskuðu eftir annarri bók um Stellu og fjölskyldu hennar, sem fjallað er um í bók hans Mömmu klikk. Hann sló því til og skellti sér í að skrifa aðra bók, að þessu sinni um hann Palla sem byggist alfarið á eldri syni hans.

Gunnar segir Palla Playstation vera síðasta verkið í þessum bókaflokki. Hann bætir því þó við að hann hafi áður lofað slíku og svikið.

Fólk þarf að passa sig í kringum mig

Aðspurður segir Gunnar að allar sögurnar hafi átt sér stað í einhverri mynd. Gunnar lagðist í mikla heimildarvinnu fyrir skrif, sankaði að sér sögum af fólki og rifjaði sjálfur upp úr eigin lífi. „Ef ég heyri eitthvað sniðugt þá festist það,“ segir Gunnar en tekur fram að það geti þó liðið nokkur ár áður en hann noti svo atvikin sér til innblásturs. Hann bætir þá við að allmörg orð eiginkonu hans, Bjarkar Jakobsdóttur, hafi ratað í bækur hans, hann sé nefnilega „giftur konu sem er hálfgerð mamma klikk.“

Nú hafa sögur Gunnars öðlast annað líf með útfærslum á leiksviði og kvikmyndatjöldum. Gunnar segir tilfinninguna vera ótrúlega. Sjálfur fór hann með hlutverk í leiksýningunni um Mömmu klikk og segist hann hafa gleymt því að vera leikari á frumstigi sýningarinnar. „Ég stóð bara og horfði á, mér fannst allir leikararnir svo æðislegir,“ segir Gunnar og bætir því við að sjálfur hafi hann leikið svo hörmulega illa á æfingartímabilinu að hann fékk áfall.

Ég vil ekki að nein börn sjái þá mynd

Þrátt fyrir að vera barnabókahöfundur er ekki þar með sagt að allt sem Gunnar taki sér fyrir hendur sé ætlað börnum. Til að mynda má vænta grínleikarans í Allra síðustu veiðiferðinni sem sýnd verður seinna í sumar og hann ítrekar að sú mynd verði alls ekki við hæfi barna. Hann lofi þó stjörnuleik og frábærri túlkun. Myndin fjalli ekki einungis um veiðar heldur sé vináttan í forgrunni.

Hikaði við hljóðbókina

Líkt og aðrir rithöfundar var Gunnar hikandi við að fara með bækur sínar á hljóðbókarmarkaðinn. Í dag er hann þó sá höfundur hjá Storytel sem mest er hlustað á. Þar eru bækurnar birtar ári eftir fyrstu útgáfu og framlengir því sá miðill líf bókanna.

„Þetta eru tölur sem maður gat ekki látið sig dreyma um.“ Gunnar fékk nýlega yfirlit fyrir notkun hljóðbóka sinna og er himinlifandi yfir hlustuninni. Nú hefur hann lagst í það verkefni að framleiða hlaðvarpsþætti þar sem hann tekur fyrir hverja Stellu-bók á fætur annarri og verður með hálfgerða bókmenntaumfjöllun fyrir krakka. Þeir séu væntanlegir í byrjun júní.

Rætt var við Gunnar Helgason í Morgunútvarpinu á Rás 2.

 

Tengdar fréttir

Leiklist

Gunnar læsti sig inni í herbergi á fyrsta stefnumótinu

Hægt að keyra í heimsókn og fá bók hent út um gluggann