Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Flestir ætla að auka starfshlutfallið

Mynd: Arnar Páll Hauksson / Arnar Páll Hauksson
Mikill meirihluti vaktavinnufólks á Landspítalanum ætlar að auka við starfshlutfall sitt vegna styttingar vaktavinnu. Ekki er útilokað að þjónusta spítalans skerðist í sumar vegna styttingarinnar og skorts á starfsfólki.

Myndin er að skýrast

Stytting vinnuvikunnar gekk í gildi um síðustu mánaðamót hjá um níu þúsund vaktavinnumönnum sem starfa hjá ríki og bæ. Af þessum fjölda eru um 3.000 í vaktavinnu á Landspítalanum. Helga Sigurðardóttir, deildarstjóri mönnunar- og starfsumhverfisdeildar, er ein þeirra sem hefur unnið að því að koma nýju vaktakerfi á. Hún segir að það hafi gengið á ýmsu frá því að vaktirnar voru styttar. Þetta hafi verið mikil vinna á álagstíma.

„ Myndin er að skýrast en hún er ekki orðin full ljós. Kerfin okkar eru nýlega tilbúin, Við hefðum eiginlega þurft miklu lengri tíma til þess að læra inn á þessar kerfisbreytingar og sjá hvað þetta þýðir, bæði stjórnendur og hinn almenni starfsmaður. Full mynd er ekki komin og sennilega veða breytingar út þetta ár verða. Fólk  er að auka við sig starfshlutfall og stjórnendur að átta mönnun,“ segir Helga.

Fá hærri laun fyrir sama vinnuframlag

Fyrir styttinguna var meðal starfshlutfall vaktavinnufólks á Landspítalanum um 70%. Vonast er til að sem flestir auki við starfshlutfall sitt. Með öðrum orðum vinni sama eða svipaðan vinnutíma en fái um leið hærri laun. En er ekki ljóst hve margir ætla að auka við hlutfallið.

„Það er mikill meirihluti sem hefur ákveðið að auka við sig starfshlutfall. Forsendurnar fyrir verkefninu voru að fólk myndi auka við sig sem næmi styttingunni og sem nemur viðbótarstyttingu sem kemur til vegna álagsvakta.“

Helga áætlar að um 90 prósent starfsmanna ætli að auka starfshlutfall sitt en mismikið. Það geti verið allt fá þremur prósentum upp í 10 til 20%. Áætla megi að aukningin nemi um 200 stöðugildum.

„Þetta er eiginlega ennþá á hreyfingu og við þurfum áfram að hvetja fólk til þess að auka við sig starfshlutfall þar sem enn er mönnunargat,“ segir Helga.

Mönnunargat

En það er nokkuð ljóst að þó að þeir sem ganga vaktir auki starfshlutfallið og vinni áfram sama vinnutíma mun það ekki duga til að stoppa í mönnunargatið. En er orðið ljóst hvað þarf að ráða marga nýja starfsmenn?

„Það mun þurfa að ráða starfsfólk sérstaklega í hópum þar sem fólk er eingöngu í 100% starfi og getur ekki aukið við sig. Þessi þörf eða mönnunargatið er ekki alveg ljós. Fólk er að átta sig núna og telja saman. Við erum í þessari kortlagningu alls staðar um hvað vatnar margar í sumar og hvað það reiknast í stöðugildum. “

- Þið eruð samt sem áður búin að áætlað að það gæti vantað um 100 manns og það fólk er kannski ekki til?

„Já það er alveg rétt. Hundrað stöðugildi myndum við ekki fá með nýráðningum en það er heilmikið svigrúm hjá þeim sem eru í hlutastörfum að auka við sig.Inni framtíðina vonast maður til þess að þetta trekki að þessar starfsstéttir. Það er mikil vaktabyrði á sjúkrahúsinu en það verður betra að vinna samkvæmt betri vinnutíma í framtíðinni.“

Gæti haft áhrif á þjónustu

Þegar samþykkt var að stytta vinnuviku vaktavinnufólks áætlaði ríkið að það myndi kosta þrjá til fjóra milljarða króna á ári. Enn er ekki ljóst hvað styttingin mun kosta á Landspítalanum en bráðabirgðaútreikningar benda til þess að kostnaðurinn verði um tveir milljarðar króna. Það hefur verið gengið út frá því að þjónusta skerðist ekki vegna styttingar vinnutímans. Helga segir að þjónusta spítalans gæti þó skerst.

„Já, það gæti gert það. Við erum vön því að þjónustu yfir sumartímann og þegar erfiðlega gengur að manna ákveðnar deildir. Núna í sumar eru teikn um að það sé aðeins erfiðara að manna. Deildarstjórar eru að telja saman hvað vantar margar ómannaðar vaktir. Það er fólkið sem er fyrir í vinnu sem bætir þessu yfirleitt á sig í aukavinnu. Þannig að það eru teikn á lofti núna að það sé erfiðara að manna og gæti haft áhrif á þjónustuna,“ segir Helga.

-Það tengist þá að hluta til styttingu vinnuvikunnar?

Já, í raun og veru tengist því að við náum ekki að loka þessu mönnunargati. Við höfum ekki gert það enn þá. Það vantar því stöðugildi,“ segir Helga.