Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ekki feilnóta á ferli

Mynd með færslu
 Mynd: Mobile Home - GusGus

Ekki feilnóta á ferli

28.05.2021 - 14:42

Höfundar

Enn er snúningur settur á gifturíkt skapalón hljómsveitarinnar GusGus, segir Arnar Eggert Thoroddsen gagnrýnandi um nýjustu plötuna, sem heitir Mobile Home.

Arnar Eggert Thoroddsen skrifar:

Hvað getur maður sagt? Fáránlegt að segja það kannski en ég fékk bæði yl og tilhlökkun í hjartað þegar ég sá að ný GusGus plata væri framundan. Af hverju? Jú, því að ég vissi að þetta yrði gott. Sveitin hefur gengið í gegnum alls kyns breytingar á rúmlega kvartaldarlöngum ferli og gæðin – heilt yfir – eru svakaleg. Þetta er ein af okkar helstu sveitum og maður nýr ósjálfrátt saman höndum þegar maður fréttir af nýju efni.

Þeir Biggi Veira og Daníel Ágúst hafa stýrt fleyinu um hríð og nú er Margrét Rán (Vök) komin um borð. Enginn smáræðis mannskapur! Einnig leggja upprunalegir meðlimir, þeir Sigurður Kjartansson og Stefán Árni Þorgeirsson, gjörva hönd á plóg.

Ég veit að eitt af því sem tónlistar-arkitektinn Biggi var að pæla með þessari plötu var að leita aftur í upphaf vinsællar raftónlistar, þá þegar hún var mótast í kringum 1980. Á örskömmum tíma fór hún frá því að vera hrá, losaraleg og tilraunakennd (sem sagt, snilldarleg) út í að umfaðma poppið (sem sagt, snilldarleg) og maður verður vel var við þessar pælingar út í gegn. Biggi nefndi líka tímamótadúetta eins og Soft Cell, OMD, Pet Shop Boys og Yazoo, tónlistartvíeyki sem höfðu rækileg áhrif á þróun popptónlistar á níunda áratugnum.

Maður heyrir þetta glöggt í allra fyrsta laginu, „Stay the Ride“. Hart, kalt og stíft og þokkalegasta Kraftwerk í gangi eiginlega. Hljóðgervillinn algerlega í takt við það sem bæði nýbylgjusveitir og framsýnir aðilar á borð við Human League voru að gera í árdaga. „Higher“ er næst, „popplag“ af GusGus-toga og þvílíka neglan sem þetta er! Margrét Rán skín í laginu, þetta er hjónaband í himnaríki. Biggi er með svo flott, einkennandi „töts“ að maður heyrir að þetta er GusGus nánast áður en lagið byrjar. „Simple Tuesday“ er þræltöff, vísar sterkt í þennan 1980 pakka sem ég nefni og Daníel Ágúst, einnig þekktur sem svalasti maður jarðarinnar, mættur á svæðið. Eins og þið sjáið, þetta er eins höggþétt og það gerist.

Platan er giska fjölbreytt þrátt fyrir þessa hugmyndafræði sem lagt var upp með. Það er ekkert búið að henda teknóinu/“house“-inu. Sjá „Our World“, glæsilega grípandi lag, hvar þessi epíska uppbygging sem Biggi kann svo vel inn á er í aðalhlutverki. Daníel syngur og Margrét kemur inn með part, gjörsamlega dásamlegt. Þessi lög flæða og grúva en svo eru innan um lög eins og „Love is Alone“ sem eru knosuð ef svo mætti segja, vísa glæsilega í þessa fortíð sem Biggi nefndi en eru um leið gjörsamlega í samtímanum og móðins (John Grant syngur hérna). Allt framreitt að hætti hússins og ekkert rugl.

Segi ekki meir. Þetta þróaðist út í hálfgert ástarbréf. Er það vel.

 

Tengdar fréttir

Popptónlist

GusGus - Mobile Home

Tónlist

Trylltur dans og taktföst tónlist

Tónlist

GusGus og Vök í eina sæng