Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Aukið barnalán áskorun fyrir Landspítalann

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Landspítalinn býr sig undir meiriháttar barnabylgju í sumar, útlit er fyrir að hvítvoðungarnir skjótist í heiminn í gríð og erg. Yfirljósmóðir á Landspítalanum skrifar þetta að hluta til á heimsfaraldurinn. Hún vinnur nú að því að tryggja nægan mannskap og húsrúm til að taka á móti börnunum. Starfsfólk hefur verið beðið um að stytta sumarfrí.

Fólk var meira heima

Heimsfaraldurinn hefur haft mikil áhrif á hegðun fólks og þó rannsóknir liggi ekki fyrir eru vísbendingar um að hann hafi haft nokkur áhrif á barneignir. „Ég held þetta sé bara það að fólk er meira á heimilinu og það sé að skila sér í því að fólk forgangsraðar hlutunum öðruvísi og hugsar kannski frekar fyrst um fjölskylduna heldur en frama og þess háttar,“ segir Ingibjörg Th. Hreiðarsdóttir, yfirljósmóðir á Landspítalanum. 

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Ingibjörg Th. Hreiðarsdóttir.

Klukkustund og þrjú kortér milli fæðinga

Upp úr áramótum fór að verða ljóst í hvað stefndi: Fleiri þungaðar konur en undanfarin ár. Forspárnar byggja á fjölda þeirra sem fara í 20 vikna ómskoðun og ættu því að fæða eftir 20 vikur. „Það er að snaraukast hjá okkur tíðni fæðinga í sumar,“ segir Ingibjörg. Í byrjun maí hafi aukningin byrjað að gera vart við sig.  

Fæðingum hefur fjölgað nokkuð undanfarin fjögur ár, um 3-5% milli ára, í fyrra fæddust 4512 börn á Íslandi en í ár er útlit fyrir að þau verði yfir 5000 talsins sem jafngildir 11% aukningu. Þetta þýðir að það líður um klukkustund og þrjú kortér á milli þess sem hringja mætti ímyndaðri fæðingarbjöllu og á hverjum sólarhring bætast við um 14 spánnýjar manneskjur.

Stór kúfur í sumar og staðan tæp á spítalanum

Yfir sumarmánuðina er búist við allt að 20% tímabundinni aukningu. Þetta er aukning á landsvísu en flest börn fæðast á Landspítalanum. Þar er starfsfólk byrjað að setja sig í stellingar fyrir komandi kúf. Barnalánið verður þolraun. „Eins og staðan er núna er þetta ansi tæpt. Það er ekki víst að við náum þessu eins og staðan er núna. Þetta snýst um mannskap, um húsnæði og aðbúnað og við þurfum bara að vinna hratt þessa dagana til að geta komið til móts við þetta,“ segir Ingibjörg.  

Mynd með færslu
 Mynd: rúv

Vilja auka samstarf við aðrar fæðingardeildir

Stjórnendur hafa biðlað til starfsfólks að stytta sumarfrí, þá hefur Landspítalinn unnið að því að koma á auknu samstarfi við fæðingardeildir annars staðar á landinu. Ingibjörg segist líka farin að finna fyrir ljósmæðraskortinum sem lengi hefur verið varað við.

Telur aukninguna komna til að vera

Líklega skrifast fjölgunin nú að hluta til á heimsfaraldurinn, en fólki er þó einnig að fjölga almennt. „Við erum líka með nýja Íslendinga sem eignast fyrr börn og fleiri börn. Ég held þetta sé ekki bóla eins og við sáum í kjölfarið á bankahruninu, þá sáum við aukningu sem fjaraði síðan aðeins út, ég held það sé frekar mannfjöldaaukning hjá okkur og þar af leiðandi eigum við von á að þetta viðhaldist,“ segir Ingibjörg.