Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

145. vika loftslagsverkfalls Gretu Thunberg

Mynd með færslu
 Mynd:
Hundrað fjörutíu og fimm vikur eru síðan sænski aðgerðasinninn Greta Thunberg skrópaði úr skólanum í fyrsta sinn í þágu umhverfisins. Í stað þess að mæta í skólann bjó hún til skilti sem á stóð Skolstrejk för klimatet, eða Skólaverkfall fyrir loftslagið, og mótmælti einsömul fyrir framan sænska þinghúsið.

Í þessum fyrstu mótmælum var Greta aðeins fimmtán ára. Í dag er hún átján ára og hefur skrópað í þágu loftslagsins 145 sinnum. En hverju hefur hún áorkað á þessari þriggja ára löngu baráttu?

Ákall Gretu þennan fyrsta dag mótmæla hefur lítið breyst í áranna rás. Hún beinir skilaboðum sínum fyrst og fremst til stjórnvalda og kallar eftir stórtækum aðgerðum til bjargar loftslagi jarðarinnar. Hún telur stjórnvöld hafa brugðist heimsbyggðinni þegar kemur að loftslagsbreytingum og hefur ítrekað lýst því yfir, bæði í ræðum sínum og í samtölum við þjóðleiðtoga.

Hún hvetur annað ungt fólk til þess að leggja baráttunni lið, skrópa úr skólanum og mótmæla alla föstudaga. Mótmælin kallar hún: Föstudaga fyrir framtíðina.

Greta var ekki lengi ein síns liðs. Fljótlega fjölmennti ungt fólk um allan heim í kröfugöngur og kallaði eftir aðgerðum í loftslagsmálum. Milljónir ungmenna taka nú þátt í Föstudögum fyrir framtíðina. Íslenskir umhverfisverndarsinnar hafa einnig lagt báráttunni lið og mótmælt fyrir framan Alþingishúsið.

Fyrsta árið í baráttu Gretu var viðburðaríkt. Hún varð meðal þeirra yngstu í sögunni til að vera tilnefnd til Nóbelsverðlauna; var tilnefnd af tímaritinu Time sem ein af áhrifamestu manneskjum ársins; og var valin sendifulltrúi samviskunnar hjá mannréttindasamtökunum Amensty International.

Augu heimsbyggðarinnar beindust svo aftur að Gretu þegar hún fór með seglskútu frá Bretlandi til Bandaríkjanna. Greta fer ekki ferða sinna í flugvélum vegna kolefnisútblásturs frá flugsamgöngum en vildi sækja ráðstefnur um loftslagsbreytingar vestanhafs. Siglingin tók tvær vikur.

Þegar ár var liðið af baráttu unga aðgerðasinnans, og mikill meðbyr var orðinn með málstaðnum, heyrðist einnig orðið hátt í andstæðingum hennar. Flestir þeirra hægri sinnaðir stjórnmálamenn sem hvöttu fólk til þess að sniðganga viðburði þar sem hún hélt erindi. Ummæli eins og „verulega truflaður Messías“ fóru víða.

Greta lét til sín taka í Bandaríkjunum og mótmælti meðal annars fyrir utan Hvíta húsið, heimili Bandaríkjaforseta Donald Trump.

Gretu var boðið að halda erindi á málþingi Sameinuðu þjóðanna í september 2019. Sú tilfinningaþrungna ræða varð fljótt heimfræg og þá sérstaklega orð hennar til þjóðarleiðtoga: „Þið hafið stolið draumum mínum og æsku með innantómum orðum. Hvernig dirfist þið.“

Greta var í lok árs 2019 tilnefnd aftur til Nóbelsverðlauna. Hún hélt áfram að sigla milli heimshluta til þess að vera viðstödd ráðstefnur um loftslagsmál. Á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna það ár lýsti hún yfir ítrekuðum vonbrigðum sínum á aðgerðaleysi stjórnvalda. Hún sagði aðgerðirnar fram að þessu hafa verið yfirborðskenndar. Hún var í desember 2019 valin manneskja ársins hjá tímaritinu Time.

Þegar heimsfaraldurinn braust út í byrjun árs 2020 hvatti Greta fylgjendur sína til þess að halda áfram að skrópa fyrir loftslagið á vefnum, undir myllumerkinu #ClimateStrikeOnline. Í ræðu sinni á degi jarðar sagði Greta að nú væri komið að því að grípa til aðgerða og skapa nýja framtíð. Hún var í þriðja sinn tilnefnd til Nóbelsverðlauna í fyrra. Hún hefur lýst því yfir hún hyggist ekki mæta í persónu á næstu stóru loftslagsráðstefnu, COP26 í Glasgow, vegna heimsfaraldursins.

Greta beinir nú sjónum sínum sérstaklega að matvælaiðnaði. Þar sé þríþættur vandi sem þurfi að takast á við: Kolefnisspor, útbreiðsla smitsjúkdóma og þjáning dýra. Í myndbandi sem Thunberg birti á Twitter á dögunum bendir hún á að með breyttri matvælaframleiðslu sé hægt að koma í veg fyrir heimsfaraldra í líkingu við COVID-19 og minnka verulega skaðleg áhrif á umhverfið.

„Ef við höldum áfram að framleiða fæðu á þennan hátt eyðileggjum við líka heimkynni flestra villtra planta og dýra og þannig útrýmum óteljandi dýrategundum“, sagði Greta.

Greta hefur fengið fjölda viðurkenninga í baráttu sinni fyrir loftslaginu. Margir telja hennar stærsta afrek hafa verið að koma umhverfisvernd á ofarlega dagskrá stjórnvalda. Sjálf segist hún hvergi nærri hætt og þykir lítið hafa breyst.

„Samband okkar við náttúruna er brotið. En sambönd geta breyst“, sagði Greta Thunberg.

Höfundur er meistaranemi í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands, í starfsnámi á fréttastofu RÚV.