Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Verðbólgan hjaðnar milli mánaða

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Verðbólgan hjaðnar frá því í apríl en hún mælist nú 4,4 prósent en hún var 4,6 prósent í apríl. Húsnæðisverð hefur vegið þyngst í hækkunum verðbólgu undanfarna mánuði en Seðlabankinn spáir því að verðbólgumarkmiðum verði náð fyrir lok árs.

Þetta kemur fram í samantekt Hagstofu Íslands á vísitölu neysluverðs.

Útlit er fyrir að verðbólgukúfurinn hafi náð toppi í apríl, er fram kemur í spá greiningardeildar Íslandsbanka. Verðbólgan muni því nú fara að hjaðna.

Hægt hefur á hækkunum vísitölu neysluverðs, en hún hækkaði um 0,71% í apríl. Hækkunin í maí nam 0,42%. Vísitala neysluverðs stendur nú í 501,4 stigum.

Hækkun húsaleigu hefur verið þónokkur og hefur töluverð áhrif á vísitöluna. Reiknuð húsaleiga hækkaði um 1,5% og vísitala neysluverðs húsnæðis hækkaði um 0,23%.

Höfundur er meistaranemi í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands, í starfsnámi á fréttastofu RÚV.

Ólöf Rún Erlendsdóttir