Vantar stað sem hjálpar ungum mönnum sem hafa nauðgað

Mynd: RÚV / RÚV

Vantar stað sem hjálpar ungum mönnum sem hafa nauðgað

27.05.2021 - 13:43

Höfundar

Eftir að #metoo-byltingin fór af stað um síðustu mánaðamót hafa fjölmargir gerendur haft samband við Stígamót til að fá ráðgjöf varðandi næstu skref. Stígamót sinna þó einungis þolendum og talskona samtakanna segir að nauðsynlega vanti úrræði fyrir gerendur.

Að undanförnu hafa myndast langir biðlistar hjá Stígamótum vegna COVID og á sama tíma hefur umræða um ofbeldi í samböndum, kynferðisofbeldi, gerendameðvirkni og fleira farið vaxandi. Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, talskona Stígamóta segir í Mannlega þættinum að COVID hafi vissulega sett strik í reikninginn hjá Stígamótum. Faraldurinn hafi slegið þjónustuna út af laginu.

Steinunn segir að samtökin finni þó meira fyrir #metoo-bylgjunni sem fór nýverið af stað. „Það er eitthvað sem virkilega ýtti við fólki. Sérstaklega okkar fólki sem eru brotaþolar kynferðisofbeldis,” segir Steinunn. Í kjölfar umræðunnar sem fór af stað hafa um 120 manns haft samband við Stígamót, að miklu leyti fólk sem Stígamót hefur ekki hitt áður. „Umræðan hreyfir við fólki og bæði upp á gott og vont. Bæði upplifir fólk mikla vanlíðan í tengslum við umræðuna en þetta verður líka til þess að fólk ákveður að stíga skrefið og leita sér hjálpar. Þetta er svona gott-vont,” segir Steinunn.

Að sögn Steinunnar er margt ólíkt með þessari #metoo-bylgju og þeirri sem fór af stað haustið 2017. „Það sem gerðist haustið 2017, þá voru konur mjög mikið að hópa sig saman og komu fram með yfirlýsingar, sögur og reynslur og sýndu hvað kynbundið ofbeldi og kynferðislegt ofbeldi og áreiti er algengt í lífi kvenna. Voru virkilega að sýna umfangið og hvað þetta væri í rauninni hversdagslegt að konur verði fyrir ofbeldi. Það var ekki þessi áhersla á persónur. Fólk kom fram með nafnlausar sögur og gerendurnir voru líka nafnlausir. Það var verið að sýna hvað þetta væri kerfisbundinn vandi. Það sem er öðruvísi núna er að fólk er að stíga fram undir eigin nafni og segja sínar sögur undir nafni og mynd. Það hefur alltaf aðeins önnur áhrif að lesa nafnlausar sögur en sögur þar sem þú þekkir viðkomandi eða veist hver er að segja söguna.”

Hún segir þó mesta muninn vera þann að ákallið núna beinist til þeirra sem hafa beitt ofbeldi og þeir hvattir til að taka ábyrgð. Það geti þó reynst snúið þar sem engin ein rétt leið er til þegar taka á ábyrgð á gjörðum sínum. Hugmyndir brotaþola eru ólíkar og litast meðal annars af tengingu við gerenda. Að undanförnu hafi margir gerendur, aðallega karlar, haft samband við Stígamót og spurt hvað þeir geta gert til að taka ábyrgð. „Við veltum fyrir okkur hvert í ósköpunum eiga þeir að leita?,” segir Steinunn. 

Stígamót sinna einungis brotaþolum og gerendur fara því ekki til samtakanna. „En eðlilega skrifa þeir okkur skilaboð og spyrja hvert þeir eiga að fara,” segir hún. Það vanti stað sem hjálpar til dæmis ungum mönnum sem hafa nauðgað vinkonu sinni. Það er ekki til neinn staður sem þau hjá Stígamótum geti bent gerendum að leita til. „Það skiptir máli að úrræðið sem tekur á móti þér sem mögulegur gerandi sé dálítið sérhæft til að fara inn í þetta raunverulega ábyrgðarferli. Það er ofboðslega auðvelt að detta í réttlætingar og skilja rosalega vel af hverju viðkomandi gerði þetta en það er ekki það sem viðkomandi þarf á að halda. Viðkomandi þarf á því að halda að vera látinn horfast í augu við það sem viðkomandi gerði og finna fyrir því hvaða afleiðingar það hafði á brotaþola. 

Skrímslavæðing hjálpar engum

Skrímslavæðing gerenda hefur ekki hjálpað í umræðunni og Steinunn segir að hún sé komin úr mýtum um kynferðisofbeldi, um vonda manninn í húsasundinu. Hún segir að mýtan sé líka til komin vegna þess að einu sinni var ofbeldi gegn konum léttvægt fundið. Þetta hafi verið álitinn partur af tilverunni. „Ég held að skrímslavæðingin komi úr því að það er verið að undirstrika hversu alvarlegt kynbundið ofbeldi er. Þess vegna verður þessi hugmynd til að þeir sem beita ofbeldi séu skrímsli. En raunin er síðan sú, að miðað við hversu margar konur hafa orðið fyrir ofbeldi, kynferðislegu ofbeldi eða ofbeldi í nánu sambandi, þá má fastlega gera ráð fyrir því að þeir sem hafi beitt ofbeldi séu nánast jafn margir. Þá erum við farin að tala um ansi stóran hluta af þjóðfélaginu. Við vitum alveg að þessi stóri hluti af þjóðfélaginu, þetta eru ekki allt skrímsli.”

Til að losa sig við skrímslavæðinguna sé því nauðsynlegt að horfast í augu við að þeir sem beita ofbeldi séu líka góðir pabbar, vinir, vinnufélagar og svo framvegis. „Það er það sem okkur hefur reynst erfitt. Þess vegna finnst fólki erfitt að trúa brotaþolum vegna þess að þeir geta ekki séð þann sem beitti ofbeldinu sem þetta skrímsli,” segir Steinunn. 

Sönnungargögn oft til staðar

Í samfélagsumræðunni um kynferðisofbeldi segist Steinunn oft heyra viðmótið að málin þurfa að fara sína leið í dómskerfinu og að ekki sé gott að hafa skoðun á ákveðnum málum fyrr en dómur sé fallinn. Þetta finnst henni rangt viðmót og bendir á að langflest mál séu ekki tilkynnt til lögreglu og þau mál sem fara til lögreglunnar, aðeins 17% þeirra komast inn í dómsal. Þá geti oft verið erfitt að meta trúverðugleika frásagna. Þegar brotaþoli er til dæmis með áfallastreituröskun, þá verður frásögnin ruglingsleg sem hefur áhrif á trúverðugleikann. Steinunn segir einnig ekki rétt að málin séu oft erfið þar sem þetta sé orð gegn orði. „Við höfum líka verið að benda á að í mörgum af þessum málum þá eru sönnunargögn til staðar og samt eru mál felld niður. Það eru kannski skilaboð þar sem er verið að biðjast afsökunar á framkomunni sem jafngildir nánast játningu. Það eru líkamlegir áverkar, það eru vottorð frá sálfræðingum og ýmislegt sem styður við framburð brotaþola. Það er ekki alveg svona klippt og skorið að þetta sé bara orð gegn orði. Það er oft ýmislegt annað sem er til grundvallar í þessum málum sem við höfum verið að benda á að þurfi að taka skýrara og betur inn í myndina og gefa því meira vægi.”

Nánar var rætt við Steinunni í Mannlega þættinum á Rás 1.

Tengdar fréttir

Menntamál

Fara yfir hættumerki í samböndum í nýrri herferð