Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Skotárásum fjölgað verulega í Svíþjóð frá aldamótum

epa09049639 Police technicians on the scene of an attack in central Vetlanda, Sweden, 03 March 2021. Eight people have reportedly been left injured in an attack in southern Sweden described by police as an act of suspected terrorism. Authorities said the situation was 'under control' with the suspected attacker having been shot and arrested by police.  EPA-EFE/Mikael Fritzon  SWEDEN OUT
 Mynd: EPA-EFE - TT
Dauðsföllum vegna skotárása hefur fjölgað verulega í Svíþjóð frá aldamótum. Landið er það eina í Evrópu þar sem mælst hefur aukning skotárása.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sænskra löggæslu yfirvalda. Þar var tekinn saman fjöldi skotárása frá aldamótum.

Tíðni skotárása í Svíþjóð er nú með því hæsta sem mælist í Evrópu, með fjögur dauðsföll á hverja milljón íbúa. Meðaltal allra landa Evrópu er 1,6 dauðsföll vegna skotvopna á hverja milljón íbúa.

Í fyrra voru skráð 360 atvik hjá sænsku lögreglunni þar sem skotvopn komu við sögu. Af atvikunum voru 47 dauðsföll og 117 tilfelli þar sem fólk slasaðist.

Ástæðan er talin vera aukin áhrif skipulagðrar glæpastarfsemi í landinu, sem eigi uppruna á Ítalíu og löndum í Austur-Evrópu. „Þessi fjölgun dauðsfalla vegna skotárása er nátengd glæpastarfsemi í verr settum hópum í samfélaginu“, segir í skýrslu sænskra löggæslu yfirvalda. Meira en átta af hverjum tíu skotárásum hafa verið beintengdar skipulagðri glæpastarfsemi.

Sænsk yfirvöld hafa lýst yfir áhyggjum af þessari aukningu og margir kallað eftir úrbótum. Ríkisstjórnin hefur nú þegar gert nokkrar tilraunir til þess að ná utan um þessa skipulögðu glæpastarfsemi, en ekki náð tilsettum árangri. Sænska stjórnarandstaðan hefur sagt niðurstöður skýrslunnar vera „til skammar“ og saka ríkisstjórnina um að hafa gefist upp.

Í niðurstöðum skýrslunnar kemur auk þess fram að í Svíþjóð sé lítið af dauðsföllum vegna annars konar ofbeldis en skotárása, í samanburði við önnur Evrópulönd.

Höfundur er meistaranemi í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands, í starfsnámi á fréttastofu RÚV.