Loftslagsbreytingar og andleg heilsa

Mynd:  / 

Loftslagsbreytingar og andleg heilsa

27.05.2021 - 14:12

Höfundar

Stefán Gíslason fjallaði um hvernig loftslagsbreytingar hafa neikvæð áhrif á andlega heilsu fólks – áhrif sem eru meiri og alvarlegri en COVID-19.

Stefán Gíslason les pistilinn:

Loftslagsbreytingar og andleg heilsa

Loftslagsbreytingar hafa verið mikið til umræðu síðustu misseri, enda eru þær að öllum líkindum stærsta sameiginlega áskorun sem mannkynið hefur nokkurn tímann staðið frammi fyrir. Þekking almennings á helstu áhrifum loftslagsbreytinga hefur að sama skapi aukist jafnt og þétt. Hlýnun andrúmsloftsins, aukin tíðni óveðra, hækkun sjávarborðs og súrnun sjávar eru allt afleiðingar sem flestir eru orðnir meðvitaðir um. Og allt hefur þetta sín áhrif á lífríki, innviði og uppskeru. Eitthvað hefur líka verið rætt um áhrif loftslagsbreytinga á líkamlega heilsu fólks, sem vissulega geta verið af ýmsum toga. Hins vegar hefur lítið verið rætt um áhrif loftslagsbreytinga á andlega heilsu. Í skýrslu sem Emma Lawrance og félagar hennar við Imperial College í London hafa tekið saman og sagt var frá í The Guardian í gærmorgun, kemur fram að loftslagsbreytingar hafi nú þegar neikvæð áhrif á andlega heilsu hundraða milljóna manns um víða veröld. Þessu fylgir verulegur kostnaður fyrir samfélagið, að öllum líkindum miklu meiri kostnaður en menn gera sér grein fyrir.

Loftslagskvíði?

Loftslagskvíði er líklega það fyrsta sem fólki dettur í hug þegar rætt er um hugsanleg áhrif loftslagsbreytinga á andlega líðan fólks. Og vissulega á loftslagskvíði sinn þátt í þessu nýja heilsufarsvandamáli, sérstaklega á meðal yngra fólks. En þetta snýst ekki bara um kvíða. Rannsóknir sýna að hitabylgjum fylgir aukin tíðni sjálfsvíga og svo liggur líka fyrir að náttúruhamfarir á borð við flóð og gróðurelda hafa mikil neikvæð áhrif á andlega heilsu þeirra sem verða fyrir áhrifum þeirra vegna. Eftir slíka atburði glímir fólk gjarnan við áfallastreituröskun, og þar við bætast bein áhrif á afkomu fólks sem missir heimili sín, lífsviðurværi og fæðuöflunarmöguleika í slíkum hamförum. Allt stuðlar þetta að aukinni streitu og þunglyndi. Vissulega eru ekki allir atburðir af þessu tagi afleiðingar loftslagsbreytinga af mannavöldum, en nú er orðið ljóst að tíðni hitabylgna, flóða og gróðurelda hefur aukist umtalsvert vegna þessara breytinga.

Vítahringur en samt ávinningur

Í grein Emmu Lawrance og félaga eru fleiri slæmar fréttir. Það er nefnilega ekki nóg með að loftslagsbreytingar hafi neikvæð áhrif á andlega heilsu, heldur er þetta í raun vítahringur í þeim skilningi að eftir því sem andlega heilsan versnar er fólk berskjaldaðra fyrir áhrifum loftslagsbreytinga. En þarna eru líka góðar fréttir, því að vitneskjan um áhrif loftslagsbreytinga á andlega heilsu og vitundin um kostnaðinn sem af þessu leiðir fyrir heilbrigðiskerfið, undirstrikar í raun ávinninginn sem einstaklingar, samfélög og stjórnvöld geta skapað með aðgerðum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ávinningurinn felst sem sagt ekki bara í hægari hlýnun, færri óveðrum, minni hækkun sjávarborðs og minni súrnun sjávar, heldur hafa aðgerðir gegn loftslagsbreytingum aukaverkanir á borð við meiri sálarró, heilbrigðara líf og bjartari vonir.

Falinn kostnaður

Emma Lawrance, sem er aðalhöfundur skýrslunnar sem hér er til umfjöllunar, er doktor í klínískum taugavísindum og starfar sem fyrr segir við Imperial College í London. Hún segir að lakari andleg heilsa sé nú, eins og málin standa, hin ósýnilega afleiðing loftslagsbreytinga. Þetta sé stórt vandamál sem muni hafa áhrif á sífellt fleira fólk í náinni framtíð og muni stuðla að auknum ójöfnuði. Og þessu fylgir að hennar mati gríðarlegur falinn kostnaður.

„Ef þú hefur misst heimilið þitt, ef þú býrð við sífellda flóðahættu, ef þú syrgir fjölskyldumeðlim sem þú misstir í eldi – eða lífsafkomuna sem þú misstir vegna þurrka, þá ertu í áfalli sem með tímanum getur þróast í langvarandi þjáningu, áfallastreituröskun, kvíða, þunglyndi og aukna sjálfsvígshættu“, svo vitnað sé beint í Emmu Lawrance, með venjulegum fyrirvara um íslenska þýðingu.

Verra en COVID

Áhrifin sem hér hefur verið lýst ná ekki bara til þeirra sem beinlínis verða fyrir barðinu á náttúruhamförum vegna loftslagsbreytinga. Atburðirnir hafa líka áhrif á annað fólk í öðrum heimshlutum og eiga þar sinn þátt í vaxandi loftslagskvíða. Sem dæmi um þetta nefnir Emma Lawrance að jafnvel í miðjum heimsfaraldri árið 2020 hafi ungt fólk í Bretlandi haft marktækt meiri áhyggjur af loftslagsbreytingum en COVID-19. Nauðsynlegt sé að taka áhrif á andlega heilsu og kostnaðinn sem því fylgir með í reikninginn þegar lagt er á ráðin um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum.

Áhrif hækkandi hitastigs

Það þarf ekki mikið hugmyndaflug til að ímynda sér að sjálfsvígstíðni hækki ef fólk verður fyrir barðinu á náttúruhamförum. Hins vegar virðist þessi tíðni líka hækka við það eitt að hitastig fari yfir einhver tiltekin mörk. Vísindamenn við Stanford háskólann birtu grein um þessi tengsl í tímaritinu Nature Climate Change árið 2018, byggða á stórri rannsókn sem gerð var í Bandaríkjunum og Mexíkó. Þar kom fram að við hverja gráðu sem mánaðarlegur meðalhiti hækkaði umfram langtímameðaltal, hækkaði tíðni sjálfsvíga um 1%. Þarna væri greinileg fylgni, en vissulega væri engin leið að fullyrða neitt um orsakasamhengið. Rannsóknir hafa líka sýnt að fólk sem glímir við andleg veikindi, svo sem geðrof, heilabilun eða fíknisjúkdóma, sé þrefalt líklegra til að deyja í hitabylgjum en á öðrum tímum. Ekki er fullljóst hvernig hærri hiti hefur áhrif á andlega heilsu, en tilgátur eru uppi um að það tengist breytingum í blóðflæði til heila, hugsanlega í samspili við lyfjanotkun, svefntruflanir o.fl.

Sálrænir áverkar 40x algengari en líkamlegir

Í grein Emmu Lawrance og félaga er m.a. vísað í fyrri rannsóknir þar sem fram kom að fjöldi þeirra sem þurfa aðstoð vegna andlegra áfalla í kjölfar náttúruhamfara geti verið um 40 sinnum meiri en fjöldi þeirra sem verða fyrir líkamlegum meiðslum. Þetta veldur verulegu álagi á heilbrigðiskerfi þjóða, sem endurspeglast m.a. í því að eftir skógareldana miklu í Ástralíu í árslok 2019 þurftu þarlend stjórnvöld að reiða fram 76 milljónir Ástralíudala (eða tæplega 7,2 milljarða ísl.kr.) vegna sálfræðiaðstoðar í tengslum við þessar hamfarir.

Dulinn vandi

Þrátt fyrir sterkar vísbendingar um mikil áhrif loftslagsbreytinga á andlega heilsu eru vísindagreinar um tengslin þarna á milli vandfundnar. Í 54.000 læknisfræðilegum vísindagreinum sem birtar voru á árunum 2010-2020 og fjölluðu að einhverju leyti um loftslagsbreytingar og heilsu, var aðeins minnst á andlega heilsu í tæplega 1% tilvika.

Góðu fréttirnar

Góðu fréttirnar í þessu öllu saman eru þær, eins og áður segir, að með vitneskjuna um tengsl loftslagsbreytinga og andlegrar heilsu í farteskinu, ættu stjórnvöld víða um heim að sjá enn betur en áður hversu mikill ávinningur getur falist í markvissum aðgerðum gegn loftslagsbreytingum. Aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda munu sem sagt, auk alls annars, bæta andlega heilsu og spara heilbrigðiskerfinu stórfé. Þessu þarf að bæta inn í kostnaðarútreikninga, bæði þegar menn reikna kostnaðinn við að ráðast í aðgerðir og kostnaðinn við að gera það ekki.