Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vona að ferðasumarið verði gott

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Formaður Samtaka ferðaþjónustunnar segir að aukinnar bjartsýni gæti meðal ferðaþjónustufyrirtækja með komandi ferðasumar. Von er á auknum fjölda erlendra ferðamanna og þá er vonast til þess að landsmenn nýti nýja ferðaávísun til ferðalaga innanlands.

 

Allir einstaklingar, 18 ára og eldri með lögheimili hér á landi, fá nýja fimm þúsund króna ferðagjöf samkvæmt frumvarpi sem Alþingi samþykkti í gær. Sú gamla rennur út um næstu mánaðamót.

Bjarnheiður Hallsdóttir formaður Samtaka ferðaþjónustunnar bindur vonir við að þetta skili svipuðum árangri og í fyrra þegar landsmenn lögðu í tugþúsunda tali land undir fót.

„Við höfum fulla trú á því að þetta hvetji fólk til að ferðast um landið og kaupa þjónustu og leiði jafnvel til þess að fólk kaupi meiri þjónustu en það ætlaði, sem er gríðarlega mikilvægt fyrir ferðaþjónustufyrirtæki út um allt land. Þessi fyrirtæki eru flest búin að þreyja þorrann mjög lengi og vera mörg hver tekjulaus hátt í heilt ár. Þannig að það veitir ekki af öllum viðskiptum sem bjóðast,“ segir Bjarnheiður.

Spár gera ráð fyrir að rúmlega 700 þúsund erlendir ferðamenn komi hingað til lands í ár. Bjarnheiður segir að aukinnar bjartsýni gæti nú meðal ferðaþjónustufyrirtækja þó enn geti brugðið til beggja vona.

„Það er að lifna yfir þessu öllu saman. Fólki sem er að vinna í ferðaþjónustunni ber saman um að það eru jákvæðar blikur á lofti. Bandaríkjamenn eru að koma mjög sterkir inn þessa dagana. Í rauninni mjög mikið af bókunum frá þeim og þeir eru farnir að koma til landsins. Við búumst við að Bretar fylgi í kjölfarið núna mjög fljótlega og það sem meira er þá er Evrópumarkaðurinn farinn að rumska líka þannig að við vonum svo sannarlega að síðsumars förum við að sjá meira af gestum frá Mið-Evrópu líka,“ segir Bjarnheiður.

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV