Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Ríkissaksóknari segist ekki geta sinnt eftirlitsskyldu

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Ríkissaksóknari segist ekki geta sinnt eftirlitsskyldum sínum með viðunandi hætti vegna tafa á nauðsynlegum breytingum á hugbúnaði. Snýr það að vörslu og meðferð stafrænna gagna, en ríkissaksóknari gerði athugasemdir við frumvarp um breytingu á lögum um meðferð sakamála fyrir fimm árum.

Athugasemdirnar snerust um að samkvæmt lögunum ætti ríkissaksóknari nú að hafa eftirlit með því að gögnum sé eytt. Það sé ekki hægt að tryggja á fullnægjandi hátt þar sem ekki er tryggt að hægt yrði að rekja hverjir hefðu aðgang að upplýsingum, svo sem þegar kemur að símhlerunum. Ríkissaksóknari segir að enn sé athugasemdum um málið ekki svarað, að því er fram kemur í skýrslu um eftirlit símahlustana árið 2020.

„Verður ríkissaksóknari enn og aftur að lýsa vonbrigðum með að fyrirspurnum hans sé ekki svarað en þessar tafir á nauðsynlegum breytingum á hugbúnaði hamlar ríkissaksóknara í að sinna eftirlitsskyldum sínum með viðunandi hætti,“ segir í skýrslunni.

Símar hleraðir í 92 skipti í fyrra

Í skýrslunni, sem Morgunblaðið fjallaði fyrst um, kemur fram að í fyrra var óskað eftir heimild til rannsóknarúrræða, svo sem símahlustunum og skyldum úrræðum, í 314 skipti í 76 málum. Í þessum úrskurðum var óskað 413 aðgerða og voru þeir úrskurðir nýttir í 388 skipti. 

Símahlustun var beitt 92 sinnum í fyrra og þar af 81 sinni hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu; 173 sinnum voru fengnar útskriftir á gagnanotkun farsíma; og notkun og eftirfararbúnaði var beitt 46 sinnum.

Í flestum tilvikum var úrræðum beint vegna fíkniefnabrota, eða í 295 málum af 388. Næst komu mál er varða ofbeldisbrot eða frelsissviptingu, 40 sinnum, og mál tengd peningaþvætti 22 sinnum.

 

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV