Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Meiri samdráttur í sumar - vandi á bráðamóttöku

Meiri samdráttur verður á Landspítalanum í sumar en í fyrrasumar. Breyta á verksviði sérfræðilækna til að bregðast við skorti á bráðalæknum því nokkrir þeirra hafa hætt störfum. Ástandið hefur ekki breyst þrátt fyrir yfirlýsingar og ástandsskýrslur, segir yfirlæknir. Sextán sjúklingar liggja nú fastir á bráðamóttöku því fullt er á öðrum deildum.

Sumarið er alltaf áskorun fyrir Landspítalann því ráða þarf sumarafleysingafólk. Í forstjórapistli Páls Matthíassonar á föstudaginn segir að gert sé ráð fyrir örlítið meiri samdrætti í starfsemi deilda en síðasta sumar. 

105 rúm ekki í notkun þegar verst lætur í sumar

Á spítalanum eru 650 rúm. Í sumar verða 89% þeirra í notkun að meðaltali en 91% þeirra voru í notkun í fyrrasumar. Þegar mest lætur í sumar verða 102 af 650 rúmum lokuð - það er ekki í notkun. Í vikunum kringum verslunarmannahelgina verða 35 fleiri rúm lokuð þ.e.a.s. ekki í notkun en á sama tíma í fyrra.

Stytting vinnuviku hefur líka áhrif

Auk árstíðabundins vanda er áfram skortur á hjúkrunarfræðingum því vaktafyrirkomulagi var breytt með styttri vinnuviku. Samkvæmt upplýsingum frá yfirstjórn spítalans horfir ekki vel með mönnun sérfræðinga í bráðalækningum í sumar. Það eru orð að sönnu. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun - RÚV
Hjalti Már Björnsson.

Breyta verksviði því bráðalæknar hættir

„Mönnunin í sumar gæti verið betri. Því miður hefur verið mikið álag á bráðamóttökunni í talsverðan tíma og nú hafa nokkrir læknar kosið að hætta störfum. Og þess vegna erum við í vandræðum með að ná að halda lágmarksmönnun sérfræðilækna á bráðamóttökunni í sumar,“ segir Hjalti Már Björnsson yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítalans.

Þýðir þetta að þið getið veitt minni þjónustu?

„Við gerum allt sem við getum til að veita öllum fulla þjónustu sem þurfa að leita til deildarinnar. En við erum núna að vinna með framkvæmdastjórn Landspítala um að breyta verksviði. Þannig að læknar annarra deilda komi inn og taki meira af endurkomum og taki fyrr við þeim sjúklingum sem þurfa að leggjast inn á spítalann.“

Eru hreinlega að gefast upp því ekkert breytist

Af hverju eru svona margir sérfræðilæknar hættir nýlega?

„Ja, það er búin að vera innlagnarkreppa á Landspítalanum núna í hálfan áratug og þrátt fyrir miklar yfirlýsingar og ástandsskýrslur hefur ástandið ekki breyst. Í dag er staðan þannig að það eru 16 sjúklingar sem bíða innlagnar á deildir og núna eru hér um tíu sjúklingar sem hafa beðið í sólarhring eða lengur. Og læknar eru hreinlega að gefast upp á því að starfa við heilbrigðiskerfi sem að er ekki nægilega vel mannað af læknum og legudeildarplássum til að sinna sjúklingum.“