Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Leitaði upplýsinga frá ráðuneytisstjóra um ferðir Helga

26.05.2021 - 11:44
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Skipstjóri Samherja leitaði í byrjun árs til ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins eftir upplýsingum um möguleg ferðalög Helga Seljan, fréttamanns RÚV, í tengslum við umfjöllun Kveiks um Samherja.

Þetta kemur fram í nýjustu umfjöllun Kjarnans í dag, en miðillinn hefur síðustu daga birt fréttir upp úr gögnum sem hann hefur undir höndum um samskipti starfsmanna á vegum Samherja. Þessi hópur starfsmanna er sagður kalla sig „Skæruliðadeild Samherja“ en skipstjórinn sem um ræðir er Páll Steingrímsson. 

Í frétt Kjarnans kemur fram að Samherji hafi frétt af ferð Helga til Kýpur í janúar, en þar hafa félög á vegum Samherja verið skráð með skrifstofur. Þáttur Kveiks um það var sýndur í febrúar, þar sem meðal annars kom fram að svo virtist sem lítil starfsemi væri á Kýpur og að skattrannsóknarstjóra grunaði að starfsemi Samherja þar í landi væri til málamynda.

Kjarninn greinir frá því að í kjölfarið hafi Samherjafólk grunað að Helgi væri í Namibíu, og velt því einnig fyrir sér hvort hann hefði farið með uppljóstraranum Jóhannesi Stefánssyni til Þýskalands árið 2019. Ástæða þeirrar ferðar er talin hafa verið að gefa namibískum yfirvöldum skýrslu í sendiráði landsins í Berlín um Namibíumálið.

Páll hafi í kjölfarið rætt við Örnu Bryndísi McClure, yfirlögfræðing Samherja, og sagst ætla að leita til Martins Eyjólfssonar og grennslast fyrir um hvort Helgi hefði farið með Jóhannesi til Berlínar. Martin er fyrrverandi sendiherra í Þýskalandi og núverandi ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins. 

„Ég get staðfest að Páll Steingrímsson leitaði til mín í byrjun árs til að kanna möguleika á aðstoð utanríkisþjónustunnar. Eins og viðbrögð Páls bera með sér var ekki unnt að verða við beiðninni enda fellur hún utan verksviðs utanríkisþjónustunnar og kom því ekki inn á borð hennar,“ segir Martin í skriflegu svari til Kjarnans, sem segir jafnframt í umfjöllun sinni að úr samskiptunum megi ekki lesa að Páll hafi fengið upplýsingar um ferðir Helga úr ráðuneytinu.

Þá hafi Páll sagt við Örnu í kjölfarið að samtalið við Martin væri hægt að nota til þess að „benda á hvaða fólk við erum að tala við þegar að við erum að koma fram með okkar málstað,“ er vitnað í Pál í umfjöllun Kjarnans.

Í fyrri umfjöllun Kjarnans var meðal annars greint frá því að Samherjafólk reyndi að hafa áhrif á formannskjör í Blaðamannafélaginu, og hafi viljað gera það einnig vegna prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi.

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari í viðtali við Kveik.
 Mynd: Kveikur
Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari.

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari sagði við Kveik í febrúar að rannsókn embættisins á Samherjaskjölunum sé umfangsmikil og kalli á samstarf við erlendar löggæslustofnanir. 

Rannsóknin hófst í nóvember 2019, um það leyti sem fjallað var um málið í Kveik og hefur verið samfelld síðan.