Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hvað er svona merkilegt við það að vera biskupsfrú?

Mynd: Kiljan / Sæmundur

Hvað er svona merkilegt við það að vera biskupsfrú?

26.05.2021 - 16:48

Höfundar

Síðustu fimm árin hefur myndlistar - og ræktunarkonan Hildur Hákonardóttir leitað í heimildum eftir konum sem frá siðaskiptum og fram til ársins 1805 gegndu virðingarstöðu biskupsfrúar í Skálholti en það ár var embættið flutt til Reykjavíkur. Þetta voru fjórtán konur og að minnsta kosti helmingur þeirra tengdist ættarböndum sem afkomendur sona síðasta katólska biskupsins á Íslandi.

Hvað er svona merkilegt við það að vera biskupsfrú? eftir Hildi Hákonardóttur er bók vikunnar á rás 1 að þessu sinni. Hér að ofan má hlusta á viðtal við höfundinn sem upphaflega ætlaði sér að rannsaka hannyrðamenningu á Suðurlandi. Í því samhengi komst hún fljótlega að raun um að þeirra kvenna sem kannski helst hefðu staðið að eða stundað útsaum og aðrar hannyrðir, þ.e. eiginkonur karla í æðstu virðingarstöðu landsins, um og eftir siðaskiptin var í heimildum nánast að engu getið. Þetta vakti forvitni Hildar sem hóf að leita. Að endingu hafði hún öðlast yfirsýn yfir þennan hóp sem einkar áhugaverðar konur fylltu og sem gegndu mikilvægu hlutverki í sögu okkur en aldrei hafa verið gerð skil. 

Í tveimur bindum rekur Hildur sögu fjórtán kvenna sem giftust biskupum hverrar fyrir sig á meðan biskupsetur var í Skálholti. Sú fyrsta er Katrín Hannesdóttir sem giftist Gissuri Einarssyni eftir að hann hafði slitið trúlofun sinni við Guðrúnu Gottskálksdóttur sem hafði orðið ólétt eftir dómkirkjuprestinn Eystein Þórðarson. Í bókinni er einnig farið yfir lífshlaup Guðrúnar sem hefði getað orðið fyrsta biskupsfrú landsins. Í afmörkuðum köflum eru raktar ættir og iðja allra þeirra kvenna sem stóðu fyrir heimili og búi í Skálholti frá því laust fyrir miðja fimmtándu öld og fram yfir 1800 þegar Valgerður Jónsdóttir árið 1805 flyst með embættinu til Reykjavíkur ásamt síðari eiginmenni sínum Steingrími Jónssyni þegar hann var gerður að biskup í Reykjavík, næst á eftir Geir góða. Fyrri eiginmaður Valgerðar var Hannes Finnsson biskup sem dó í Skálholti árið 1796. Áður en Valgerður biskupsekkja fluttist, öðru sinni orðin biskupsfrú, til Reykjavíku hafði hún ásamt seinni manni sínum og fyrrum aðstoðarmanni Hannesar, sr. Steingrími austur í Odda - og þaðan til Reykjavíkur.

Auk biskupsfrúnna fjórtán fá einnig Helga Magnúsdóttir (1623-1677), oft kennd við Bræðratungu, sinn kafla en Helga átti í talsverðum samskiptum við biskupsstólinn þegar þar var biskupsfrú Margrét Halldórsdóttir (1615-1670) eiginkona Brynjólfs biskups Sveinssonar en þeirra dóttir var Ragnheiður sem um hafa verið skrifuð skáldverk og samin ópera.  Þá fær einnig Leónóra Kristín Ulfeldt sinn kafla, en Leónóra var vegna meintra landráða eiginmanns síns, Corfitz Ulfeldt, dæmd til vistar í Bláturni þar sem hún dvaldi í tuttugu og tvö ár. 

Í gegnum lífshlaup þessara kvenna allra leitast Hildur við að beina kvenlægu sjónarhorni að þeim margvíslegu sviptingum sem áttu sér stað í heiminum, þar með talið á Íslandi á þessu tvöhundruð og fimmtíu ára tímabili. Siðaskiptin marka upphaf tímabilsins og augljóst að þau umskipti reyndust verkefni til langs tíma, tilkoma prentsins breytti líka miklu sem og síðar póstsamgöngur við útlönd.

Hildur gerir ýmsar uppgötvanir í ransókn sinni og skráningu eins og til dæmis hvernig í tæplega tvær aldir þess er vandlega gætt að allir biskupar í Skálholti gangi að eiga konu sem sé í „skáhallandi“ kvenlegg afkomandi síðasta katólska biskupsins á Ísland. Biskupsfrúrnar skyldu með öðrum orðum eiga móður - eða ömmusystur sem reki ættir til sona Jóns Arasonar, þeirra Ara og Björns, sem voru hálshöggnir með föður sínum í Skálholti árið 1550 og þar með siðaskiptin endandlega innsigluð. Hildur heldur því fram að þetta mynstur ættarfylgni embætta hafi ekki verið einsdæmi á Íslandi til að viðhalda ítökum í valdastofnunum samfélagsins. 

Fyrst og fremst veita bindin tvö Hvað er svona merkilegt við það að vera biskupsfrú? eftir Hildi Hákonardóttur lifandi innsýn í líf og hugsunarhátt allra kvennann á þessu langa og viðburðaríka tímabili sem hér er spannað.  Hildur beitir aðferð samtalsins við ritun bókarinnar en sú aðferð felur í sér að hún sest á hljóðskraf með biskupsfrúnum hverri fyrir sig og lætur þær leiða sig. 

Í þættium Bók vikunnar á rás 1, sunnudaginn 30. maí verður rætt við sagnfræðingana og rithöfundana Erlu Huldu Halldórsdóttur og Þórunni Erlu - Valdimarsdóttur um biskupsfrúrnar í Skálholti  og kvenlægt sjónarhorn á sögu Íslands frá siðskiptum og fram til ársins 1805. Umsjónarmaður þáttarins er Jórunn Sigurðardóttir