Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hafnar því að vélin hafi verið þvinguð til lendingar

26.05.2021 - 09:37
Alexander Lúkasjenkó, forseti Hvíta-Rússlands. - Mynd: ASSOCIATED PRESS / BelTA
Alexander Lúkasjenkó, forseti Hvíta-Rússlands, segir að viðbrögð annarra ríkja síðustu daga, í kjölfar þess að farþegaþotu á leið frá Grikklandi til Litáens var gert að lenda í Minsk í Hvíta-Rússlandi á sunnudag, hafi gengið of langt.

Stjórnvöld í Minsk eru sögð fela sig á bak við falska sprengjuhótun sem afsökun við því að Roman Protasevich, hvítrússneskur blaðamaður sem var um borð var handtekinn. Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa. Málið er sett að jöfnu við hryðjuverk og hvítrússneskum flugfélögum verður bannað að fljúga í lofthelgi Evrópusambandsins. Þá boðar ESB hertar viðskiptaþvinganir.

Lúkasjenkó ávarpaði hvítrússneska þingið í morgun þar sem hann tjáir sig um málið. Ríkisfréttastofan Belta segir forsetann hafa lýst málinu sem enn einni tilraun stjórnarandstæðinga til þess að ráðast gegn réttmætum stjórnvöldum landsins. 

„Ég brást við innan ramma laganna til þess að vernda þjóðina,“ sagði Lúkasjenkó, og neitaði því að vígbúin orrustuþota hefði þvingað farþegavélina til lendingar í Minsk. Slík fullyrðing væri „hrein og bein lygi.“

Mótmæli gegn stjórnvöldum hafa blossað upp að nýju vegna málsins og tugir þúsunda hafa krafist afsagnar forsetans. Þá vitna mótmælendur í forsetakosningarnar í landinu í fyrra, þar sem Svetlana Tsjíkhanovskaya bauð sig fram gegn Lúkasjenkó en neyddist til að flýja land í kjölfarið. 

Tsjíkhanovskaya er meðal þeirra sem hafa gagnrýnt stjórnvöld hart í málinu nú. Hún sagði Lúkasjenkó beita her landsins gegn saklausum borgurum til þess að refsa andstæðingi sínum og að enginn væri öruggur sem flygi yfir Hvíta-Rússland.