Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Eignarhluturinn í Stoðum var orðinn óþægilega stór

26.05.2021 - 14:34
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist - RÚV
TM hefur selt allan eignarhlut sinn í Stoðum fyrir 4,3 milljarða króna. Forstjóri TM segir að eignarhluturinn í Stoðum hafi verið orðinn „óþægilega stór“.

Tilkynnt var um kaupin í tilkynningu Kviku banka til Kauphallarinnar, en TM er dótturfélag Kviku.

Eignarhluturinn í Stoðum var stærsta einstaka fjárfestingaeign TM, eða um 14 prósent af 30 milljarða króna eignasafni. Sigurður Viðarsson, forstjóri TM, segir við fréttastofu að meginástæða sölunnar sé sú að eignarhluturinn hafi einfaldlega verið orðinn of stór hluti eignasafnsins, eða „óþægilega stór“ eins og hann orðar það. Þá flýtti það fyrir sölunni að Stoðir eru einn stærsti eigandi móðurfélagsins Kviku.

Ekki var ætlunin að selja allan eignarhlutinn en ákveðið hafi verið að gera það þegar gott tilboð barst í hann. Eftir söluna er stærsta einstaka eign TM um eins og hálfs prósenta hlutur í Eyri Invest.

Hluturinn var seldur til hóps fag- og einkafjárfesta í gegnum söluferli sem Íslenskir fjárfestar hf. sáu um fyrir hönd TM. Sigurður segist ánægður með niðurstöðuna og að TM hafi hagnast vel á fjárfestingunni.

Stoðir, áður FL Group, er eitt stærsta fjárfestingafélag landsins. Samkvæmt heimasíðu félagsins eru heildareignir þess metnar á 39 milljarða króna og eru helstu eignarhlutir þess níu prósenta hlutur í Kviku, 15 prósenta hlutur í Símanum og fimm prósenta hlutur í Arion banka. Hagnaður Stoða í fyrra var sjö og hálfur milljarður.

Magnús Geir Eyjólfsson