Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Sextán myrtir á kókabúgarði í Perú

25.05.2021 - 05:58
Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Tvö börn voru á meðal sextán fórnarlamba árásar skæruliðahreyfingar á kóka-búgarði í Perú í fyrradag. Búgarðurinn er í afskekktum dal. Lögreglu var gert viðvart af fólki á næsta bæ í gær. Þau fundu líkin við bakka lítillar ár í nágrenninu, og var búið að brenna sum þeirra, hefur AFP fréttastofan eftir Alejandro Atao, sveitarstjóra í héraðinu.

Árásin er talin hafa verið gerð af vinstri sinnaðri skæruliðahreyfingu. Óttast er að hún eigi eftir að kynda undir spennu á milli andstæðra fylkinga í komandi forsetakosningum í Perú. Þar mætast vinstri maðurinn Pedro Castillo og hægri sinninn Keiko Fujimori. Í yfirlýsingu perúska hersins segir að á vettvangi fjöldamorðsins hafi bæklingar legið á víð og dreif, þar sem fólk er hvatt til þess að sniðganga kosningarnar. Bæklingarnir voru prentaðir af stjórn skæruliðahreyfingar maóista. Þar sagði meðal annars að hreyfingin ætli að losa héraðið við sníkjudýr og spillingarpésa.

Yfirvöld eru með flesta liðsmenn skæruliðahreyfingarinnar í haldi, en leiðtoginn Victor Quispe Palomino gengur enn laus, ásamt nokkrum fylgismönnum hans. Stjórnvöld segja hreyfinguna vinna með eiturlyfjasölum á þeim svæðum sem kókalauf eru ræktuð.

Að sögn AFP hafa stuðningsmenn Fujimori reynt að tengja andstæðing hennar, Castillo, við pólitískan arm skæruliðahreyfingar maóista. Castillo tók sjálfur þátt í átökum vopnaðra sveita gegn skæruliðahreyfingunni á milli áranna 1980 og 2000, og þvertekur fyrir samstöðu með þeim.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV