Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Leyfi fyrir laxeldi fellt úr gildi

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Rúnar Snær Reynisson
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur fellt úr gildi ákvörðun Matvælastofnunar um að veita Löxum fiskeldi ehf. rekstrarleyfi fyrir kynslóðaskiptu sjókvíaeldi á laxi með 10 þúsund tonna hámarkslífmassa í Reyðarfirði.

Vék frá áliti Skipulagsstofnunar

Þetta kemur fram á vef Matvælastofnunar í dag. Þar kemur fram að stofnunin, oft kölluð MAST, hafi lagt álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum til grundvallar en að hún hafi vikið frá álitinu varðandi þyngd seiða við útsetningu.

Leyfðu 56 grömm í stað 200 gramma

Skipulagsstofnun lagði til að seiðin yrðu að lágmarki 200 grömm samanber fyrirætlanir í umhverfismatsgögnum en MAST skilyrti lágmarksstærðina 56 grömm í rekstrarleyfinu. 

Skilyrði Skipulagsstofnunar eru ekki bindandi en rökstyðja þarf ef vikið er frá þeim. Það gerði Matvælastofnun. 

Í frétt á vef Matvælastofnunar segir að niðurstaða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, bæði meiri- og minnihluta, byggi á þeirri forsendu að MAST, hafi ekki verið heimilt að setja skilyrði í rekstrarleyfi um lágmarksþyngd 56 grömm enda hafi ekki verið gert umhverfismat á seiðum 56 til 199 grömm að þyngd. 

Matvælastofnun hefur ákveðið að auglýsa ný drög að rekstrarleyfi miðað við forsendur úrskurðarins, þ.e.a.s. fyrir seiði sem eru minnst 200 grömm. 

Ekki búið að ákveða hvort sótt verður um bráðabirgðaleyfi

Jens Garðar Helgason framkvæmdastjóri Laxa fiskeldis sagði við Fréttastofu í dag að ekki væri búið að ákveða framhaldið. Einn möguleikinn sé að sækja um bráðabirgðaleyfi til sjávarútvegsráðherra í ljósi úrskurðarins en ekkert hafi verið ákveðið um það. Fjárfestingin nemi nú þegar nemi einum og hálfum til tveimur milljörðum króna. Búið sé að ráða fjölda fólks og nú í kvöld sé að koma nýr fóðurprammi fyrir laxeldið.