GusGus - Mobile Home

Mynd: GusGus / Mobile Home

GusGus - Mobile Home

25.05.2021 - 11:05

Höfundar

Hljómsveitin GusGus hefur starfað frá 1995 með góðum árangri og hinir og þessir komið við til að taka í hin ýmsu hljóðfæri og hljóðnema. Nú er sveitin tríó og sendir frá sér sína elleftu sólóplötu, Mobile Home, með þau Bigga veiru, Daníel Ágúst og Margréti Rán í áhöfn.

Mobile Home er fyrsta platan sem GusGus sendir frá sér síðan á árinu 2018 og er eins og fyrr sagði sú ellefta í röðinni. Enn einu sinni er reynt á þanþol sköpunarinnar og á þessari plötu blanda þau saman hinum ýmsu stefnum í níu lögum sem sækja áhrif í rafrokk, kántríballöður og svífandi synthapopp.

Fyrsta lagið sem kom út af Mobile Home var Higher þar sem heyrðist greinilega hversu átakalaust Margrét Rán úr Vök kom inn í hljóðheim GusGus. Síðan kom út lagið Stay the Ride og í kjölfarið á því Our World. Lögin þrjú voru myndskreytt af stofnmeðlimum GusGus, Arna & Kinski, og vöktu myndböndin töluverða athygli.

Samkvæmt sveitinni er Mobile Home nokkurs konar konseptplata þar sem hvert lag endurspeglra heim sem hefur verið tekinn yfir af vélum. Hún endurspeglar ris tækninnar og óöryggi fyrir framtíðinni auk þess að skoða einmanaleika, uppreisnargirni, vísindaskáldsögur, sjálfsdýrkun, neysluhyggju, nautn og reiði, að sögn sveitarinnar.

Hljómsveitin GusGus á plötu vikunnar á Rás 2 og var spiluð í heild sinni eftir 10 fréttir í gærkvöldi ásamt kynningum á lögum plötunnar frá þeim Bigga Veiru, Daníel Ágústi og Margréti Rán, auk þess að vera aðgengileg í spilara.