Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Gagnrýna ráðabrugg „skæruliðadeildar“ Samherja

25.05.2021 - 13:05
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Forystumenn ríkisstjórnarinnar gagnrýna harðlega tilraunir starfsmanna á vegum Samherja til að hafa áhrif á formannskosningar í Blaðamannafélagi Íslands og framboðslista í prófkjöri sjálfstæðismanna. Forsætisráðherra segir að þessi afskipti séu óásættanleg.

Kjarninn og Stundin birtu um helgina gögn sem benda til þess að starfsmenn á vegum Samherja hafi farið í skipulagða áróðusherferð gegn nafngreindum fjölmiðlamönnum. Þá hafi starfsmennirnir rætt það sín á milli að reyna að hafa áhrif á formannskosningar í Blaðamannafélagi Íslands og breyta framboðslista í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi.

Katrín Jakobsdsóttir forsætisráðherra telur þetta vera gagnrýnisvert.

„Það að fyrirtæki sé að beita sér, annars vegar í kjöri hjá Blaðamannafélaginu og hins vegar hugsanlega gagnvart því hvernig stjórnmálaflokkar eru að stilla upp á sína lista, finnst mér með öllu óásættanlegt og fara langt yfir þau mörk sem við teljum eðlileg í samskiptum í samfélaginu,“ segir Katrín.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins tekur í svipaðan streng.

„Mér finnst auðvitað óeðlilegt almennt ef að fyrirtæki vilja hafa áhrif á framboðsmál stjórnmálaflokka en ég get nú ekki sagt að ég hafi orðið var við það eða hafi haft spurnir af því að það hafi haft einhver áhrif eða liggur það ekki fyrir samkvæmt lista yfir frambjóðendur að það virðist ekki hafa gengið eftir sem menn voru að véla um,“ segir Bjarni.