Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Friðrik Jónsson kjörinn formaður BHM

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Friðrik Jónsson var kosinn nýr formaður Bandalags háskólamanna í rafrænni kosningu sem lauk á hádegi í dag. Hann er formaður Félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins og tekur við formennsku í BHM á fimmtudaginn. Þann dag verður aðalfundur bandalagsins haldinn.

Friðrik tekur við af Þórunni Sveinbjarnardóttur sem hefur verið formaður undanfarin sex ár. Varaformaðurinn Jóhann Gunnar Þórarinsson leysti hana af frá 17. mars síðastliðnum. Kjörtímabil formanns BHM er tvö ár en hver og einn má lengst gegna formennsku í átta ár. 

Fulltrúar sem aðildarfélög BHM tilnefna til setu á aðalfundi kjósa formann annað hvert ár. Rafræn kosning hefur staðið yfir frá 13. maí síðastliðnum og lauk á hádegi í dag. 

Friðrik hlaut 69,5% atkvæða en Maríanna H. Helgadóttir, formaður Félags íslenskra náttúrufræðinga, hlaut 30,5% atkvæða. Kjörsókn var um 99% en 187 af 189 aðalfundarfulltrúum á kjörskrá greiddu 187 atkvæði. 

Friðrik er fæddur árið 1967, með meistaragráðu í alþjóðasamskiptum og MBA í alþjóðaviðskiptum. Hann hefur um aldarfjórðungsskeið starfað í utanríkisþjónustu Íslands. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV