Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Fær greiddar 703.938 krónur á dag

Mynd: Skjáskot / RÚV
52 ára sjálfstætt starfandi svæfingalæknir trónir á toppi lista yfir þá lækna sem Sjúkratryggingar Íslands greiða mest fyrir hvern vinnudag. Sá læknir fær að meðaltali greiddar 703.938 krónur á dag. Hann vann 129 daga á árinu 2020 og voru heildargreiðslur til hans því tæp 91 milljón króna, en hann hitti að meðaltali 5,8 sjúklinga á hverjum vinnudegi.

Kveikur fjallaði um stöðu sjálfstætt starfandi sérfræðilækna, eða stofulækna, í mars síðastliðnum. Þeir hafa verið samningslausir frá árslokum 2018 og svo virðist sem lítið gangi í samningaviðræðum við Sjúkratryggingar Íslands. Stjórnvöld hafa ákveðið að breyta því kerfi sem hefur verið við lýði um áratugaskeið, við lítinn fögnuð læknanna. Nánar er fjallað um þá stöðu hér.

Kveikur hefur nú fengið afhent ítarlegri gögn um greiðslur til stofulækna frá Sjúkratryggingum Íslands. Þar má meðal annars sjá meðalgreiðslur til hvers læknis á dag. Þær eru reiknaðar þannig að hafi læknirinn sent svo mikið sem einn reikning sem dagsettur er þann dag, þá telst það sem heill vinnudagur. Misjafnt er hversu hátt hlutfall af reikningnum er greitt af SÍ, svo hér eru allar tölur samanlagður hluti sjúklings og SÍ. Auk þess eru tækja- og efnisgjöld inni í þessum tölum.

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands.

Árið 2020 fengu 376 sjálfstætt starfandi sérfræðilæknar eitthvað greitt frá Sjúkratryggingum Íslands. Svæfinga- og skurðlæknar skera sig úr hvað varðar meðalgreiðslur á dag.

Þeir raða sér í tíu efstu sætin, með meðalgreiðslu á dag frá 571.159 krónum upp í fyrrnefndar 703.938 krónur.

María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands segir mikilvægt að auka gegnsæi:

„Þetta eru verktakagreiðslur, þetta er ekki fólk á launaskrá. Og hluti af þessu fer auðvitað í kostnað sem læknar þurfa að greiða eins og til dæmis fyrir húsnæði, fyrir tæki, fyrir starfsmenn. En engu að síður, þetta eru mjög háar tölur og við finnum fyrir því að það er aukin áhersla í samfélaginu á það að það ríki gegnsæi um meðferð opinberra fjármuna. Þannig að við teljum það mjög mikilvægt að þetta verði kostnaðargreint. En það er auðvitað eitthvað sem við þurfum að gera í samstarfi við okkar viðsemjendur.“

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV

Sá sem fékk hæstar heildargreiðslur í fyrra var 62 ára skurðlæknir, sem rukkaði 111.313.163 krónur árið 2020. Hann vann 180 daga og hitti að meðaltali rúmlega 12 sjúklinga á dag. Meðaldaggreiðslur til hans voru því 618.406 krónur eða 9,3 milljónir á mánuði. Hann hefur fengið greiddar samtals um 580 milljónir króna síðustu fimm ár, á verðlagi miðað við apríl 2021. Eru forsendur fyrir hendi til að meta hvort það sé eðlilegt eða ekki? María Heimisdóttir segist sammála því að gott væri ef þetta væri gegnsærra:

„Eins og kom fram í viðtali við formann Læknafélags Reykjavíkur um daginn að þá hefur þessi þjónusta aldrei verið kostnaðargreind eða þær tölur lagðar fram með opinberum hætti. Hvorki hvað þjónustan kostar né hvaða framlegð er af henni. Og þá er auðvitað bara mjög erfitt að segja hvað er eðlilegt og hvað er ekki eðlilegt. Þannig að við leggjum auðvitað bara mjög ríka áherslu á það að þetta sé kostnaðargreint og fólk þurfi þá bara ekkert að velkjast í vafa um það hvað er eðlilegt í þessu.“

Fimmtíu og fimm læknar fá meira en 400.000 krónur fyrir hvern vinnudag, 48 læknar fá á bilinu 300.000–399.999 á dag, 86 læknar fá 200.000–299.999 á dag, 139 læknar fá 100.000–199.999 á dag og afgangurinn minna. 

Athyglisvert er að einn augnlæknir sker sig úr í sinni sérgrein. Sá er í 23. sæti yfir hæstu meðaltekjur á dag, með 477.930 krónur. Til hans komu 1.265 sjúklingar í fyrra, en samtals komur sjúklinga eru 2.816. Hver sjúklingur hefur því komið rúmlega 2,2 sinnum á árinu – að meðaltali.

Næstu augnlæknar eru í 54. og 64. sæti og flestir eru töluvert neðar en það. Næsthæsti augnlæknirinn hitti 3.102 sjúklinga í 3.582 komum, en hann vann líka töluvert fleiri daga, eða 206 á móti 121 hjá þeim tekjuhæsta. Hann er samt ,,aðeins“ með 375.100 kr. á dag. María segir eftirlitsdeild Sjúkratrygginga hafa tekið eftir þessu.

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV

„Það sem maður tekur kannski eftir í þessu tilviki er að ár eftir ár þá er þetta svona, þessar mjög háu greiðslur. Þetta er ekki bara stutt tímabil. Það eru mjög margir sjúklingar á hverjum einasta degi, árum saman. Og reikningarnir eru talsvert hærri per sjúkling heldur en hjá öðrum augnlæknum. Auðvitað kann að vera að sjúklingasamsetningin og meðferðin sem veitt sé, sé með öðrum hætti heldur en hjá þeim sem við erum að bera saman við og það er auðvitað bara eitthvað sem við þurfum að skoða.“

Það skal áréttað að hér er um að ræða verktakagreiðslur og læknarnir þurfa að greiða ýmsan kostnað við rekstur sinnar stofu. Heilbrigðisráðherra lagði nýverið fram drög að reglugerðarbreytingum í samráðsgátt stjórnvalda, þar sem er meðal annars kveðið á um að þeir stofulæknar sem fái greitt samkvæmt gjaldskrá SÍ, þurfi að skila endurskoðuðum ársreikningum ársins á undan. Læknar mótmæla þessu, telja ekki vera lagastoð fyrir slíkri kröfu og að hún brjóti í bága við rétt sjúklinga til að velja sér lækni eins og kveðið er á um í lögum um réttindi sjúklinga.

Læknar hafa einnig bent á að það sé áhyggjuefni hvað stofulæknar séu orðnir gamlir. Yngri læknar leiti í auknum mæli inn á sjúkrahúsin. Meðalaldur stofulækna hefur farið úr 56 árum árið 2014 í 57,6 ár árið 2020. Rúmlega 40% eru komin yfir sextugt og þar af eru 50 læknar sem eru enn að störfum eftir sjötugt.

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV

Kveikur óskaði að auki eftir yfirliti um framleiðni stofulækna eftir aldri. Þar kemur í ljós að þeir læknar sem eru 61–70 ára hitta töluvert fleiri sjúklinga og vinna fleiri daga en þeir sem yngri eru.

Það er þó ekki rétt að engin nýliðun hafi orðið eftir að samningslaust varð í árslok 2018. Á árabilinu 2015–2020 hættu 86 stofulæknar starfsemi. Á sama tíma tóku 118 nýir stofulæknar til starfa, þar af 46 á síðustu tveim árum. Nettófjölgun frá 2015 er því 32 læknar.

Kveikur hefur óskað eftir því að fá nöfn læknanna gefin upp, en því var hafnað af Sjúkratryggingum Íslands. Var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndar um upplýsingamál og er úrskurðar beðið.