Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Amazon stefnt fyrir samkeppnislagabrot

25.05.2021 - 23:54
Ný Amazon búð í Seattle
 Mynd: cbs
Saksóknari í Washington, höfuðborg Bandaríkjanna, höfðaði í dag mál gegn netrisanum Amazon. Hann sakar fyrirtækið um að misnota markaðsráðandi stöðu sína í verslun á netinu til að halda uppi verði og grafa undan öðrum seljendum. Talsmaður Amazon neitaði öllum ásökunum og sagði saksóknarann snúa hlutum á haus.

Samkvæmt markaðsrannsóknum fyrirtækisins eMarketer var Amazon með 39,8 prósenta hlutdeild í netverslun í fyrra og því er spáð að hlutdeild fyrirtækisins aukist í 44,1 prósent í ár. 

Karl Racine saksóknari sagði að Amazon hefði 50-70 prósenta markaðshlutdeild. Hann sakaði fyrirtækið um að misnota markaðsráðandi stöðu sína sér til hagsbóta. Hann sagði að því færi fjarri að Amazon léti viðskiptavini njóta góðs af markaðsráðandi stöðu sinni. Þvert á móti gerði fyrirtækið sitt besta til að halda uppi verði. Bæði með því að heimta stóran hluta af söluverði þeirra fyrirtækja sem selja vörur gegnum Amazon og með því að koma í veg fyrir að þeir byðu vörurnar á hagstæðara verði annars staðar.

Hagnaður Amazon nam 8,1 milljarði dollara fyrstu þrjá mánuði ársins. Það er þrefalt meiri hagnaður en á fyrsta ársfjórðungi síðasta árs.