Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Verð sjávarafurða lækkar enn

24.05.2021 - 08:37
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Verð íslenskra sjávarafurða, mælt í erlendri mynt, lækkaði um 1,9 prósent á fyrsta fjórðungi þessa árs. Þetta er fjórða skiptið í röð sem verð sjávarafurða lækkar milli ársfjórðunga. Um þetta er fjallað í nýjustu Hagsjá Hagfræðideildar Landsbankans.

Þar segir að verð á sjávarafurðum hafi ekki verið lægra síðan í lok árs 2018. Verðið náði hámarki snemma á síðasta ári, rétt áður en kórónuveirufaraldurinn skall á, og síðan þá hefur það lækkað um tæp 9 prósent. Verð botnfisksafurða hefur lækkað um 9,8 prósent og verð á uppsjávarafurðum um 3,4 prósent.

Í Hagsjánni er fjallað um að það hafi hjálpað tekjustreymi íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja að krónan hafi verið 7,3 prósentum veikari í upphafi þessa árs en á sama tíma í fyrra. Sé horft á áhrif veikingar krónunnar og lækkunar á afurðaverði séu áhrifin á tekjur sjávarútvegsins neikvæð um 2,1 prósent.

Einnig segir að heimsmarkaðsverð matvæla hafi byrjað að hækka á seinni helmingi síðasta árs, eftir að hafa hríðlækkað í byrjun árs þegar faraldurinn fór að breiðast út. Verð á botnfiski frá Íslandi hafi hins vegar ekki tekið við sér, heldur lækkað nærri stöðugt frá miðju síðasta ári.