Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

„Þótt ég sé fluttur frá Gaza er hugur minn þar“

24.05.2021 - 19:57
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Ragheb Besaiso, Palestínumaður búsettur á hér á landi, segir erfitt að sjá fréttir af mannfalli og neyð á Gaza, borginni sem hann ólst upp í. Brýnt sé að alþjóðasamfélagið þrýsti á Ísraela að tryggja tveggja ríkja lausn.

„Þótt ég sé fluttur frá Gaza er hugur minn þar, ég hugsa stöðugt um fólkið mitt, fjölskyldu, vini og ættingja,“ segir Ragheb. Hann segir það hafa verið erfitt að horfa á fréttir af hernaðinum í mánuðinum. Bæði hafi hann áhyggjur af ástvinum og eins rifjist upp fyrri reynsla af þeim hryllingi sem fylgi stríði. „Ég varð vitni að þremur stríðum og mishörðum átökum á Gaza áður en ég flutti til Íslands. Allir segja að þetta stríð sé það ofsafengnasta vegna þess að hvergi var öruggt skjól að finna á Gaza.“

Skólar, heilbrigðisstofnanir, heimili og fyrirtæki voru sprengd upp í árásum Ísraela á Gaza á dögunum. Þúsundir leituðu skjóls í skólum á vegum Sameinuðu þjóðanna en fólk óttaðist þó allan tímann að þeir gætu orðið skotmörk. Samið var um vopnahlé á föstudag en Ragheb segir að það þýði þó ekki að lífið verði auðvelt fyrir íbúa á Gaza þar sem lífsskilyrði hafi verið slæm árum saman undir hernámi Ísraela. „Rétturinn til að lifa með reisn, vera örugg, aðgangur að heilbrigðisþjónustu og ferðafrelsi, frelsi til að ferðast að vild. Ekkert af þessu er til staðar. Þetta slæma ástand mannúðarmála og aðstæður til lífs eru áhyggjuefni og ekkert bendir til að þetta fari batnandi.“

Viðtal við Ragheb Besaiso má sjá í spilaranum hér að ofan.