Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Riddari hringstigans

Mynd með færslu
 Mynd: One Little Independent - Kick the Ladder

Riddari hringstigans

24.05.2021 - 13:00

Höfundar

Kick The Ladder er fyrsta sólóplata Kaktusar Einarssonar. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í gripinn sem jafnframt var plata vikunnar í síðustu viku á Rás 2.

Arnar Eggert Thoroddsen skrifar:

Kaktus er hvað þekktastur sem forsprakki Fufanu en eftir þá eðlu sveit liggja nokkrar plötur og tónleikaferðalög á erlendri grundu. Þessa plötu vann Kaktus hins vegar með svissneska raftónlistarmanninum Kurt Uenala (Null & Void). Platan var samin á Íslandi og þróuð frekar í Kaupmannahöfn í samvinnu við franska píanistann Thibault Gomez. Þeir félagar unnu m.a. að því að koma óhefðbundinni píanótækni og annarri tilraunamennsku í popplagabúning og ber platan þessari vinnu fagurt vitni. 

Mýkt er orðið sem er mér efst í huga eftir að hafa rennt plötunni nokkrum sinnum. Og eitthvað sem væri hægt að kalla reisn jafnvel. Platan fer aldrei út í neinn æsing heldur rúllar hvert og eitt lag áfram í höfugum gír. Flæðið er jafnt og öruggt og það er nánast eins og verkið sé viljandi til baka, Kaktus haldi upp að sér spilunum og hleypi okkur ekki of nálægt. Hér er reisuleg ró og stilla yfir. Platan er seintekin, seytlar inn í þig hægt og rólega. Gefðu henni tíma, kæri hlustandi.  

Tónlistin er einslags rafskotið popp, lögin eru popplög en maður finnur fyrir þessum pælingum sem ég lýsi fyrr án þess að þær skyggi nokkru sinni á lagið sem slíkt. Tökum dæmi. „One of those“ er t.d. ein af þessum stílíseruðu rafballöðum Kaktusar, melódísk og værðarleg en í einslags goth-skotnum gáfumannagír. Það er líka eitthvað „evrópskt“ við það hvernig Kaktus nálgast þetta, „My driver“ gæti t.d. hafa skotið upp kolli í löngru gleymdri franskri kvikmynd frá 1987.

Meira að segja í hressari lögunum („Story of Charms“ t.d.) finnur maður fyrir þessari afskiptu nálgun ef við getum lýst þessu sem svo, nokkurs konar svöl fjarlægð við efnið sem virkar vel, gefur plötunni dulúð.  Og sjá t.d. „45 rpm“ sem kom út á smáskífu. Dreymið og dulrænt, fallegt og hugleiðandi en þrætt með þessari samtíma-klassísku nálgun sem Kaktus og Gomez kokkuðu upp í Köben. Maður hugsar um þessa framsæknu poppara eins og David Sylvian hvar ræturnar voru í vinsældapoppi en úrvinnslan bæði tilraunakennd og framsýn.

Merkilegur frumburður um margt. Mér finnst eins og Kaktus sé gömul sál og verkið er óvenju þroskað fyrir mann sem hefur ekki enn náð þrítugu. Yfir því þroski og rósemd, æðibunugangur æskunnar víðs fjarri. Ég er giska spenntur að heyra hvert hann fer með þetta í framhaldinu.

 

Tengdar fréttir

Popptónlist

Kaktus Einarsson - Kick The Ladder