Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Fimm ára drengur sá eini sem lifði af slys á Ítalíu

24.05.2021 - 12:47
Erlent · Ítalía · Evrópa
Mynd með færslu
 Mynd: Vigili del Fuoco
Yfirvöld á Ítalíu hafa hafið rannsókn á slysi sem varð í norðurhluta landsins í gær. Kláfur hrundi og fjórtán létust. Fimm ára drengur var sá eini sem lifði af.

Slysið varð í hlíðum Mottarone fjalls um hádegisbil í gær. Kláfurinn var á leið upp á topp fjallsins þegar hann hrundi niður um 20 metra. Einn þeirra sem kom fyrstur á vettvang er Luca Carica slökkviliðsmaður. Hann segir aðkomuna hafa verið hræðilega og það hafi verið erfitt fyrir bráðaliða að athafna sig í brattri hlíð fjallsins. 

Fimmtán manns voru um borð

Carica segir að við þeim hafi blasað fjöldi líka, þau hafi strax reynt að hlúa að fólkinu en aðeins tvö börn hafi verið með lífsmarki. Þau voru flutt á spítala, annað þeirra lést þar. Fimm ára drengur er sá eini sem lifði slysið af. Alls voru fimmtán um borð, samkvæmt ítölskum miðlum var fólkið úr fimm fjölskyldum. Utanríkisráðuneyti Ísraels hefur staðfest að fimm ísraelskir ríkisborgarar hafi látist í slysinu. Foreldrar drengsins sem lifði af, tveggja ára sonur þeirra og amma og afi móðurinnar. 

Enrico Giovanni, samgönguráðherra Ítalíu, heitir rannsókn á orsökum slyssins. Það sé nú sameiginlegt verkefni allra stofnana að ganga úr skugga um að þetta gerist aldrei aftur og að koma þeim sem tengjast slysinu til aðstoðar. 
 

 

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV