Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Þrjú rafskútuslys og Eurovision gleði fram eftir nóttu

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Þrjú rafskútuslys eru skráð í dagbók Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt. Tvö þeirra urðu í Vesturbæ Reykjavíkur. Það fyrra varð á tólfta tímanum í gærkvöld.

Þegar lögregla kom á vettvang lá maður við hliðina á leiguhlaupahjóli, og var hann að sögn lögreglu töluvert blóðugur í andliti, efri vörin mjög bólgin og tvær tennur brotnar. Kallað var eftir sjúkrabíl og hlúðu sjúkraflutningamennirnir að honum. Maðurinn neitaði að fara með þeim á bráðadeild.

Um hálf fjögur varð annað rafskútuslys í Vesturbænum en ekkert frekar er skráð um það. Laust fyrir klukkan tólf í gærkvöld varð svo rafskútuslys í Hafnarfirði. Að sögn lögreglunnar féll kona af rafskútu, og var hún meðvitundarlaus og blæddi úr höfði hennar þegar lögregla kom á vettvang, en ekkert frekar er vitað um líðan hennar. 

Um klukkan hálf sjö í gærkvöld var kallað eftir aðstoð lögreglu í íþróttavöruverslun í Kópavogi. Tveir menn voru þar að slást, en að sögn lögreglu hlutu þeir minni háttar áverka. Annar þeirra fékk þó far með sjúkrabíl á bráðadeild.

Svo virðist sem Eurovision-teiti íbúa á höfuðborgarsvæðinu hafi lengst eitthvað í annan endann, því lögregla fékk margar tilkynningar vegna hávaða frá heimilum. Loks vill lögreglan ítreka að hún er byrjuð að sekta fyrir notkun á nagladekkjum. Sektin nemur 20 þúsund krónum á hvert dekk.
 

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV